Framtúnið

Það stendur yfir heyskapur. Heyinu hefur verið ýtt í sátur með gamla Ferguson eftir að hafa verið rakað saman í garða. Heysáturnar eru eins og risavaxnar þúfur á Framtúninu og freistandi fyrir litla snáða að príla upp á þær. Skemmtilegast af öllu er samt að fá að sitja uppi á sátunni meðan hún er dregin heim þar sem heyinu er mokað með kvísl inn í blásara sem þeytir því með hávaða inn í hlöðuna. Blásarinn er tengdur við aflúrtakið á Nallanum og það hvín og syngur í drifbúnaðinum. Bróðir minn stendur sveittur við að moka í blásarann. Afabróðir sér um að draga sáturnar heim á Ferguson. Það krefst lagni því að reipið sem brugðið er utan um sátuna og bundið er í traktorinn þarf að sitja á réttum stað. Sé það of neðarlega dregst það undir sátuna. Sé það of ofarlega dregst það upp af sátunni og dreifir úr henni.

Einn dag sem oftar verður mér að ósk minni og ég kem mér fyrir eins og kóngur í ríki mínu uppi á heysátunni sem mjakast af stað. Afabróðir eykur ferðina hægt og bítandi. En skyndilega er skreppur reipið upp af sátunni og ég finn það herða að hálsi mínum. Reipið dregur mig út af sátunni áður en afabróðir nær að stöðva. Ég slepp með skrekkinn en eftir þetta stafar mér ógn af þessum bölvuðu heysátum. Í lágreyknum sem leggur stundum yfir Framtúnið á kvöldin minna þær á her af þursum sem hefur sprottið upp úr jörðinni. Í draumum mínum vaxa þeim horn.

Smáprósar

Leave a Reply

Discover more from Litlibakki

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading