Gamlibrunnur
Ég man eftir tréhlera með skófum sem átti að varna því að skepnum og börn færu sér að voða í Gamlabrunni. Hlerinn var orðinn fúinn þegar ég komst á legg og mamma minnti mig oft á að passa mig á brunninum. Hann var mitt í miklu þýfi framan og neðan við bæinn heima. Brunnurinn lét ekki mikið yfir sér en þegar spýturnar brotnuðu sá í dæmigært dý með grænu slýi og brunnklukkum.
Eftir að reykkofinn brann á Hrauninum ákvað pabbi að gera nýjan kofa og valdi honum stað í barðinum neðan við Gamlabrunn. Á nokkrum góðum sumardögum stakk hann út rúmgott reykhús með eina reku að vopni. Ég sat hjá og fylgdist með, en passaði mig á brunninum. Síðan var reft yfir með járni og torfi. Til að varna því að eins færi og á Hrauninu var reykurinn leiddur inn gegnum rör úr eldstæði sem haft var fyrir utan.
Næstu árin var hangikjötið reykt í þessu jarðhýsi en varð aldrei eins gott og á Hrauninu. Sennilega var það rakinn frá Gamlabrunni sem varð til þess að kjötið þornaði aldrei almennilega.
Í dag sést þess vart stað að pabbi minn hafi tekist á við móann og mokað hluta hans burt. Jarðhýsið er fallið saman og fúnu fjalirnar við Gamlabrunn löngu orðnar að dufti. Dýið er samt enn þarna. Ekki jafn skelfilegt og forðum en minnir á sig með grænum mosa og slýi. En nú eru engin börn á bænum sem þarf að vara við.