Stjörnukofi

Sum örnefni eru að eilífu glötuð, önnur bara til á blaði. Ekkert sem vitnar um þau lengur. Landslagi fortíðar hefur víða verið umturnað með stórvirkum vélum. Flatneskja og fóðurlendur kæfa söguna og handverk forfeðranna. Þegar ég horfi úr flugvél yfir akrana sem teygja sig óslitnir yfir sveitir meginlands Evrópu eða Bretland hugsa ég oft um öll þau örnefni sem hafa orðið jarðýtum, herfum, plógum og tæturum að bráð. En jafnvel í túninu heima stend ég frammi fyrir því sama. Einhver staðar þarna stóð hann, fyrir innan Gvendarbrunn og neðan við Hraun, Stjörnukofi. Ég veit fyrir víst að þessi kofi var ekki stjörnuskoðunarstöð. En hver var þessi Stjarna? Væntanlega hestur, gæðingur sem fékk eigið íveruhús. Mamma segir að afasystir mín hafi átt hest sem hét Stjarna. En það hefði allt eins getað verið Guðmundur góði  sem hefði látið fylgdarmenn sína byggja skjól fyrir reiðhest sinn um leið og hann vígði brunninn. Og síðan hefðu þeir verið þarna um aldir brunnurinn og kofinn. Enn sprettur vatn í Gvendarbrunni en Framtúnið hefur gleypt Stjörnukofa.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: