Jörðin

Jar

Bændaeign

Litlibakki hefur verið bændaeign svo lengi sem heimildir ná og kemur hvergi við sögu klaustur- eða kirkjujarða. Leiddar hafa verið líkur að því að Bakki hafi heitið ein af landnámsjörðum í Tungu og átt landamerki við Galtastaði, Hallfreðarstaði og Gil (Menningarminjar á Fljótsdalshéraði og í Borgarfirði eystra. 1998, bls. 18). Elsta heimild um Litlabakka er kaupbréf frá því í febrúar 1558. Í því selur Jón Magnússon bóndi jörðina ásamt öllum búshlutum utan stokks og innan til sonar síns Jóns Jónssonar. Er jörðin metin á sex hundruð og landamerki hennar skilgreind nærri eins og þau eru í dag.

Kaupbréf fyrir Bakka litla í Tungu.

Það gjörum vér Ari Jónsson, Guðmundur Sigurðsson, Bjarni Jónsson, góðum mönnum vitanlegt með þessu voru opnu bréfi, þá liðið var frá guðs burði MDL og VIII vorum vér í hjá sunnudaginn næstan eftir imbruviku á langaföstu, að Jón Magnússon, af einni hálfu, seldi Jóni Jónssyni, syni sínum, jörðina Bakka 6 hundruð að dýrleika hver er liggur í Kirkjubæjar kirkjusókn með þeim öllum gögnum og gæðum sem greindri jörð fylgir og fylgt hefur með þessum takmörkum út í Geirstaði og sjónhending norður í Jökulsá og réttsýni upp í Hrærekslæk og úr læknum og fram í Merkidal, er hann kallaði. En á milli stóra Bakka og litla Bakka, fyrrgreindrar jarðar, eru þessi takmörk fram í Berjahól og upp á hálsinn og norður í Jökulsá. Hér í móti gaf fyrr nefndur Jón Jónsson 6 hundruð fyrir oft nefnda jörð litla Bakka. Skyldi þar í vera þrjú málnytu kúgildi og þrjú hundruð í öllum þarflegum peningum og gjaldast út á þremur árum. Skyldi Jón Magnússon svara lagariftingum en Jón Jónsson halda til laga. Hér með gaf Jón Magnússon þrátt nefndum syni sínum Jóni Jónssyni alla þá búshluti er þar væri saman komnir utan stokks og innan. Var frá tekin kista stór og 5 skjólna ketill, söðull og sæng hans, og bækur allar. Skyldi Jón Magnússon sér ábýli á þessari jörðu, og svara öllu fyrir, svo lengi sem hann hefði. Og til sanninda hér um settum vér fyrirskrifaðir menn vor innsigli fyrir þetta jarðakaupsbréf, hvert skrifað var á Ketilsstöðum á Völlum. Sunnudaginn í páskaviku, á sama ári og degi sem fyrr segir.

(Diplomatarium Islandicum, 1933-39. 13. bindi, bls. 296-7)

Um þennan Jón Magnússon, sem átti og bjó á Litlabakka um siðaskiptin, finnast litlar heimildir aðrar. En staðfest er að hann átti einnig jörðina Hrærekslæk og hafði nokkrum árum áður gefið Guttormi syni sínum þá jörð skv. kaupbréfi frá 1555 þegar Guttormur selur jörðina. Í báðum þessum kaupbréfum er Geirstaða getið sem lands á milli Litlabakka og Hrærekslækjar.

Árið 1624 skrifaði Marteinn Jónsson, þá prestur á Hjaltastað, tíðindi af Héraði til móðurbróður sín, Odds á Reynivöllum í Kjós, og sagði m.a. frá kálfi sem hvarf úr kú á Litlabakka (Eiðasaga Benedikts Gíslasonar, bls. 53).

Í jarðatali sem skráð er 1697 kemur fram að eigandi Litlabakka sé Steinunn Marteinsdóttir (f. 1678) sem hafi erft hana eftir föður sinn, Martein Rögnvaldsson, sýslumann á Eiðum sem lést 23. október 1692 (sjá mynd að ofan). Þar segir jafnframt að Kristín Eiríksdóttir hafi erft Hrærekslæk eftir sinn föður Eirík Ólafsson, prest á Kirkjubæ, sem lést 16. sept. 1690. Kristín var gift bróður Steinunnar, Páli Marteinssyni sem lést 1703 og var sýslumaður á Eiðum. Marteinn Rögnvaldsson bjó sem sýslumaður á Hallfreðarstöðum um tíma og gæti hafa eignast jörðina þá en hann átti einnig hluta í Hallgeirsstöðum sem önnur dóttir hans, Guðrún fékk eftir hans dag. Í jarðabókinni 1697 kemur fram að Guðrún Marteinsdóttir og Kristín Eiríksdóttir eigi Hallgeirsstaði saman. Í jarðabókinni segir líka að Guðrún og systir hennar Þuríður eigi Hallfreðarstaði saman. Þetta gefur vísbendingu um eignarhald á þessum nágrannajörðum.

Úr jarðatali 1720.

Í jarðatali 1720 er Litlibakki sögð sex hundruð að dýrleika og eitt leigukúgildi. Skráð er í dómabók frá manntalsþingi sem haldið var á Hjaltastað 5. september 1778 kaupbréf frá 8. júlí 1777 þar sem Ásmundur Einarsson bóndi á Hóli í Útmannasveit kaupir Litlabakka sem sögð er sex hundruð að dýrleika á 60 ríkisdali. Seljandi er Evert Wium, sonur Hans Wium sýslumanns. Ekki liggur ljóst fyrir hvernig Evert eignaðist jörðina en áhugavert að hann var þremenningur við Rustikus Björnsson hvers börn byggðu Litlabakka síðar. Rustikus var orðinn eigandi jarðarinnar árið 1804 samkvæmt Jarðamati sem þá var framkvæmt.

Aðrar heimildir um kaup og sölu á eignarhlutum í Litlabakka eru nokkrar. Í dómabók Norður-Múlasýslu 1854-1857 er þessi færsla um staðfest makaskipti 31. maí 1855. „Afsalsbréf frá Benedikt Gunnarssyni til Ásgríms Guðmundssonar fyrir 6 hundruðum í Hrærekslæk móti 3 hundruðum í Litlabakka og 150 spesíum.“ Um þennan Ásgrím (f. um 1788) segir í Ættum Austfirðinga að hann hafi búið lengi og allvel á Hrærekslæk. Benedikt þessi er væntanlega sá sem bjó í Klúku, á Fossvöllum og Arnórsstöðum. Einar Sigfússon mágur hans bjó um tíma á Stórabakka.

Páll Ólafsson skáld á Hallfreðarstöðum virðist hafa átt helming í jörðinni um tíma. Á manntalsþingi að Fossvöllum 22. maí 1857 er staðfest afsalsbréf þar sem Benedikt Gunnarsson selur Páli Ólafssyni 3 hundruð í Litlabakka. Á manntalsþingi að Fossvöllum fimm árum seinna, 18. júní 1862 er auglýst kaupbréf frá Páli Ólafssyni til Halldórs Jónssonar fyrir hálfri jörðinni Litlabakka. Það er um þær mundir er Páll flytur frá Hallfreðarstöðum.

Í jarðatali 1861 er jörðin sex hundruð forn og 13,1 hundrað í nýju verðmati. Í nýju fasteignamati 1922 er hún samtals metin á 49 hundruð króna sem skiptist í landverð 35, hús 12 og umbætur 2.

Úr jarðatali 1861.