Ættin

Litlibakki hefur ætíð verið bændaeign en gengið kaupum og sölum. Á 19. öld voru tvö bæjarhús á jörðinni og mest skráðir allt að fimm ábúendur í einu með sínar fjölskyldur í þessum tveimur torfbæjum. Ekki liggur fyrir hvenær jörðin komst alfarið í eigu þeirrar ættar sem setið hefur á Litlabakka í um tvær aldir eða allt frá því Jón Rustikusson yngri flutti þangað árið 1834. En staðfest er að faðir hans, Rustikus Björnsson á Fossvöllum átti jörðina 1804.

Jón „yngri“ Rustikusson

Fæddur 1790

Jón Rustikusson yngri fæddist á Fossvöllum, sonur Rustikusar Björnssonar (1753-1817) frá Nefbjarnarstöðum og Guðrúnar Jónsdóttur (f. 1759) frá Galtastöðum út. Þau bjuggu lengi á Fossvöllum og þótti Rustikus „einhver hinn mesti dugnaðar- forstands- og framkvæmdamaður á sinni tíð“ eins og sr. Árni á Kirkjubæ sagði um hann látinn. Jón yngri átti sjö systkini og kvæntist tvisvar. Hann hafði misst fyrri konu sína, Guðfinnu, þegar hann flutti í Litlabakka 1834. Þar var þá tvíbýli og bjó Þórunn systir hans á hinum bænum. Síðari kona Jóns hét Guðrún Eiríksdóttir (f. 1799) og var frá Breiðavaði. Hún var bústýra hjá Jóni þegar þau fluttu í Litlabakka en þau gengu í hjónaband 1835. Með henni átti hann soninn Þorfinn (f. 1838) sem bjó líka á Litlabakka og giftist Sigríði Pétursdóttur frá Galtastöðum út. Þorfinnur varð úti á Vestdalsheiði 7. mars 1874 og flutti Sigríður til Ameríku árið 1876 með tvö börn en Sigbjörn (1872-1959) sonur þeirra varð eftir á Litlabakka sem tökubarn. Hann var skráður vinnumaður á Sleðbrjóti í manntali 1890 en flutti síðan til Kanada og var meðal fyrstu Íslendinganna sem brautskráðust frá Wesley College í Winnipeg.

Guðfinna Árnadóttir

F. 1792. D. 29. 5. 1831

Guðfinna Árnadóttir, fyrri kona Jóns Rustikussonar yngri, fæddist á Hjartarstöðum í Eiðaþinghá og var dóttir Árna Vilhjálmssonar (f. 1766) bónda þar og Málfríðar Árnadóttur (f. 1758) frá Urriðavatni. Jón og Guðfinna bjuggu víða á Héraði og eignuðust a.m.k. þrjú börn en aðeins Málfríður lifði til fullorðinsára.

Málfríður Jónsdóttir

F. 23.4.1825. D. 6.9.1886

Málfríður Jónsdóttir var fædd á Tókastöðum í Eiðaþinghá. Hún var níu ára þegar hún kom með föður sínum í Litlabakka. Árið 1847 kom Guðmundur Sigurðsson (1816-1903) úr Hjaltastaðaþinghá sem 32 ára vinnumaður til Jóns, föður Málfríðar. Hann var á Litlabakka í tæp tvö ár en á þeim tíma barnaði hann Málfríði (22 ára) og Helgu Jónsdóttur (26 ára) frænku hennar á hinum bænum. Fæddust drengirnir báðir árið 1848. Sonur Málfríðar og Guðmundar var skírður Árni og í manntölum færður sem fósturbarn Jóns Rustikussonar og Guðrúnar Eiríksdóttur. Hann ólst samt upp með móður sinni því að Málfríður bjó áfram í foreldrahúsum og var sögð í kirkjubókum „hafa gott orð“ og vera „ráðvönd“. Árni Guðmundsson (1848-1912) óx úr grasi og var í húsmennsku á Litlabakka. Hann fékk tvö hundruð í jörðinni eftir móður sína og var skráður bóndi á Litlabakka 1895 til 1904.

Stefán Sigurðsson

F. 1821. D. 11.4.1894.

Stefán Sigurðsson var sonur Sigurðar Jónssonar (1798-1861) og Oddnýjar Bjarnadóttur (1799-1841) sem voru efnalítil og bjuggu víða en Sigurður bjó síðast í Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá með seinni eiginkonu sinni Ragnhildi Gísladóttur (1815-1880). Stefán átti sex alsystkini og tíu hálfsystkini. Hann kom sem vinnumaður í Litlabakka 1851 og gekk að eiga Málfríði u.þ.b. ári síðar og árið 1853 eignuðust þau fyrstu dótturina. Árið 1857 er Stefán skráður sem þriðji bóndinn á Litlibakka, sennilega á þeim tveimur hundruðum sem Málfríður átti. Ári síðar var jörðin orðin fjórskipt skv. kirkjubókum og er það fram til 1862 en þá voru Stefán og Málfríður flutt annað. Þau eru komin í Hallgeirsstaðir 1864 og þar fæðist Vilborg. Þau flytja aftur í Litlabakka árið 1876.

Stefán Sigurðsson bóndi á Litla-Bakka í Hróarstungu lézt að heimili sínu 12. apríl [1894]. Hann mátti telja með merkustu bændum; bjó langa tíð á Hallgeirstöðum í Jökulsárhlíð (gagnvart Litla-Bakka) og var flest þau ár hreppstjóri í Jökuldals- og Hlíðarheppi, einhverjum víðlendasta hreppi a landinu, leysti hann þá sýslu sérlega ötullega og samvizkusamlega af hendi, og lét ei af henni fyr en hann fluttist á eignarjörð sína Litla-Bakka. Kvongaður var hann, en látin var konan fyrir nokkkru, og sum börn þeirra dáin á hörmulegan hátt (eitt drukknaði í Jökulsá) og dótturbarn sitt missti hann í Jökulsána, svo hann hlaut þannig allopt að kenna „kulda lífs”, en bar hann með karlmensku, því hann var sérlega þreklyndur maður, og bauð ávallt glatt geð. Hans er saknað af hverjum, sem þekkti hann, sem drenglyndaðs og göfuglynds manns. (R)

Þjóðólfur, 46. árg. 1894, 26.tbl. 12.6.1894

Vilborg Stefánsdóttir

F. 4.9. 1864.  D. 23.10. 1944

Vilborg Stefánsdóttir átti tvær eldri systur. Guðfinna var fædd 1853 en drukknaði í Jöklu 4. desember 1874. Páll Ólafsson, sem þá bjó á Hallfreðarstöðum, orti falleg eftirmæli um hana. Signý var fædd 1855 en lést haustið 1887. Hún eignaðist son, sem var skírður Ólafur, með Ólafi Jóhannessyni vinnumanni í Sleðbrjótsseli. Drengurinn fæddist 13. janúar 1878 en drukknaði í Jöklu 6. júní 1887 þar sem hann var að leika sér á meðan fólkið var að mjólka ær í kvíum niðri á Stekkjarnesi. Bakkinn sprakk undan honum og hann hvarf í ána. Signý móðir hans lést 16. september sama ár úr taugaveiki. Vilborg átti á sinni búskapartíð eftir að taka að sér fósturbörn.

Sigbjörn Björnsson

F. 5.9. 1853. D. 18.12.1914.

Sigbjörn Björnsson var sonur Bjargar (1829-1887), systur Stefáns, og Björns Björnssonar (1830-1898). Þau bjuggu víða á Úthéraði og komu sem vinnufólk í Litlabakka um 1880. Þau áttu 14 börn en mörg dóu ung. Systkini Sigbjörns sem fóru til Vesturheims, flest frá Seyðisfirði 1889, voru: Oddný (1854-), Stefán (1860-1913), Bergþór (1861-1947), Guðrún (1865-) og Jónína (1870-). Skúli (1857) lést ókvæntur 1894. Sigbjörn og Vilborg voru því systkinabörn. Þeirra kynni tókust á Litlabakka þegar Sigbjörn kom þar sem vinnumaður 1879. Hinn 9. október 1888 gengu þau í hjónaband og fengu hluta jarðarinnar til ábúðar vorið eftir.

Sigbjörn Björnsson bóndi á Litla-Bakka, andaðist að heimili sínu 17. des. s.l. eptir þrönga legu. Banamein hans var illkynjuð veiki (æxli) í höfðinu. Sigbjörn heitinn var fæddur á Svínafelli í Hjaltastaðaþingá 5. sept. 1853. Foreldrar hans voru hjónin Björn Björnsson og Björg Sigurðardóttir, sem bjuggu á Bóndastöðum og víðar í Hjaltastaðaþingá. Þau áttu mörg börn og var Sigbjörn einn þeirra á lifi hér á landi, en sum systkini hans fóru til Ameríku og eru þar enn á lífi sum af þeirra. Á yngri árum var Sigbjörn vinnumaður á ýmsum stöðum, svo sem hjá Birni Hermannssyni bónda á Selsstöðum og Halli Einarssyni bónda á Litla-Steinsvaði. Frá hinum síðarnefnda mnn hann hafa farið.að Litla-Bakka til Stefáns bónda Sigurðssonar, móðurbróður sins. Árið 1888, 9. okt. giftist hann frænku sinni Yilborgu Stefánsdóttur og byrjuðu þau hjúskap á Litla-Bakka vorið eptir, og bjuggu þar alla tíð síðan. Búskapurinn gekk þeim hjónum vel, svo að jafnan var heimili þeirra talið í röð efnameiri heimila Tunguhrepps, enda voru þau bæði búhyggin og samtaka í því að sjá sem bezt um heimili sitt, þrátt fyrir fremur tæpa heilsu þeirra beggja hin síðari ár, einkum Sigbjörns. Hjónaband þeirra var alla tíð mjög gott. Þau eignuðust 9 börn. Af þeim eru 5 á lífí, 3 stúlkur og 2 drengir. Sigbjörn heitinn var fjörmaður á yngri árum, greindur að náttúrufari, kátur og fremur léttlyndur. Hann var talsvert glíminn og hafði gaman af meinlausri stríðni og kappræðum, einkum ef hann hafði bragðað vín, sem honum þótti gott, en hafði ekki oft um hönd. Gaman hafði haun af gestum og tók vel á móti þeim, þegar þá bar að garði. Ýmis opinber störf hafði hann á hendi innan sveitar, því að við sveitungar hans þekktum hyggindi hans og gætni í þjóðmálum og öðru, enda voru tillögur hans jafnan hollar fyrir sveitafélagið. Aldrei skifti Sigbjörn sér opinberlega af pólitískum deilum, enda mun það ekki vera gróðavegur fyrir bændur eða auka þeim næði við búskapinn. Hinsvegar reyndi hann að fylgjast með, eins og hverjum kjósenda ber að gjöra, til þess að geta notað atkvæðisrétt sinn eptir eigin sannfæringu, en ekki annara, eins og því ver stundum á sér stað.
Litli-Bakki tók miklum umskiptum eptir að Sigbjörn heitinn tók þar við búi. Hann sléttaði mikið af túninu, og girti að nokkru leyti, byggði mikið að húsum bæði bæjar- og búpeningshúsum.
Okkur sveitungum Sigbjörns þykir höggvið allmikið skarð i bændatölu vors fámenna sveitarfélags við fráfall hans en um það tjáir ekki að tala, sá er gangur lífsins. Bót er þar líka í máli að maður kemur oft í manns stað, enda skilur hann okkur eptir mannvænleg börn, sem ætla má að á sannist gamla orðtækið: „Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni.” Ekkja hans situr í óskiftu búi, og heldur því áfram í sama horfi og áður.
Sigbjörn var jarðsunginn heima á Litla-Bakka 6. jan. s.l. af séra Vigfúsi Þórðarsyni. Margt manna fylgdi honum til grafar þrátt fyrir fremur slæma færð um það leyti. Heimagrafreitum fjölgar óðum hér í Héraði og er það að vonum, þar sem hér er oft erfitt að flytja lík langar leiðir til kirkju í misjafnri færð, og svo þykir ættingjum ánægjulegra að geta hirt um leiði ástvina sinna heima hjá sér og síðast en ekki sízt er að telja, að margir búendur vilja helzt bera þar beinin, sem þeir hafa lengst unnið. Ennfremur eru kirkjugarðarnir oft ekki sem aðgengilegastir til greftrunar. Sá bágur er samt á heimagreftri, að honum er samfara talsverður kostnaður. Fyrst og fremst að sjálfsögðu viðhald grafreitsins og girðing. Ennfremur gjald í landsjóð fyrir leyfið og svo síðast legkaup til kirkjunnar, svo hún missi einskis þótt garður hennar sé ekki notaður. Þrátt fyrir þessar kvaðir fjölgar heimagrafreitum einlægt, enda virðist ánægjulegra og eðlilegra að hver jarðeigandi fái að hvíla þar, sem hann helzt óskar. sem verður þá optast á einhverjum fegursta hólnum á eignarjörð hvers eins. Þannig valdi Sigbjörn heitinn sinn síðasta hvíldarstað. Rangá 1/3 1915. Björn Hallsson.

Austri, 10.tbl. 25. árg. 18.3.1915, bls. 39

Skúli Sigbjörnsson

F. 17.10 1903.  D. 3.6. 1970

Vilborg og Sigbjörn misstu fjögur börn við fæðingu en fimm komust á legg. Skúli var yngstur systkinanna á Litlabakka, fæddur 1903. Hann fór í Alþýðuskólann á Eiðum og síðan í lýðskólann í Mjóanesi. Elst var Málfríður (1889-1980) sem var ógift og bjó á Litlabakka fram á síðustu ár þegar hún dvaldi á hjúkrunarheimili á Egilsstöðum. Stefanía (1894-1984) giftist Emil Jóhanni Árnasyni í Blöndugerði 1921 og bjó þar. Björg (1895-1975) var ári yngri en Stefanía. Hún var ógift og bjó heima á Litlabakka allt sitt líf. Björn (1900-1981) fæddist aldamótaárið, var ókvæntur en varð ráðsmaður hjá móður sinni og bjó síðan á móti bróður sínum á jörðinni. Hann var síðustu árin á hjúkrunarheimili á Egilsstöðum.

Ingibjörg Vilhjálmsdóttir

F. 27.4. 1905. D. 31.10. 1954.

Ingibjörg Vilhjálmsdóttir var fædd á Þuríðarstöðum í Fljótsdal. Hún var dóttir Vilhjálms Einarssonar (1842-1906), sem var fæddur í Hleinargarði í Eiðaþinghá, og seinni konu hans, Þórhildar Kristbjargar Eiríksdóttur (1872-1930) en hún kom norðan úr Svalbarðssókn með móður sinni og systkinum. Ingibjörg átti tvö alsystkini, Halldór (1896-1959) og Kristínu (1899-1989), og tvö hálfsystkini, Þórstínu (1883-1925) og Einar (1886-1974).

Ingibjörg og Skúli kynntust í Alþýðuskólanum á Eiðum og fylgdu kennurunum Benedikt Blöndal og Sigrúnu Pálsdóttur konu hans í lýðskólann sem þau stofnuðu í Mjóanesi árið 1924. Ingibjörg flutti í Litlabakka 1932 og þau Skúli giftust 13. september 1933 hjá sýslumanninum á Seyðisfirði.

Þau Ingibjörg og Skúli eignuðust tvær dætur, Þórhildi Vilborgu (1937-2014) og Svandísi (1938). Þær fóru báðar í Alþýðuskólann á Eiðum (1953-54) og síðan á Húsmæðraskóla á Varmalandi í Borgarfirði syðra (1957-58). Svandís bjó síðan á Litlabakka með föður sínum og föðursystkinum.

Svandís Skúladóttir

F. 29.12.1938

Svandís gekk að eiga Gunnar Aðólf Guttormsson (3.4.1929-7.3.2023) frá Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá 23. ágúst 1959. Þau hófu sína sambúð á Stórabakka þar sem Gunnar stýrði barnaskóla Tunguhrepps 1958-1963 en fluttu síðan alfarið í Litlabakka 1964. Gunnar var gagnfræðingur frá Alþýðuskólanum á Eiðum 1951 og lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni 1953.

Svandís og Gunnar eignuðust þrjú börn, Ingibjörgu (8.9. 1958), Jóhann Guttorm (1.10 1959) og Skúla Björn (24.3. 1970).

Þórhildur Vilborg Skúladóttir

F. 15.7.1937. D. 16.8.2014

Þórhildur Vilborg (Hulla) giftist Jóni Magnússyni (21.9.1930) rafvirkja á Seyðisfirði 20. september 1959. Þá flutti hún á Seyðisfjörð og bjó þar alla sína ævi. Þau Jón eignuðust þrjú börn: Bjarnheiði (10.2.1960), Skúla (10.4.1962) og Ingibjörgu (2.9.1969).