Búskapur

Elsta heimild um búskap á Litlabakka er að finna í Jarðamati sem gert var 1849-50. Þar segir:

Litlibakki: Túnið fóðrar 2 kýr og umkring og á jörðinni framfleytast 60 ær, 50 sauðir, 50 lömb og 4 hestar, tún að mestu leyti strítt en engjar snöggvar, stórgripaganga í engjum, málnyta í meðallagi, torfvelta í meðallagi, skógur enginn enn um mótak vita menn ekki. Hætt er við sandfoki á tún og engjar, og það sem hæst liggur af landi er blásið. Til að vinna upp jörðina þykir þurfa 3 karlmenn og 3 kvenmenn. Jörðin mun virt á 400 (fjögurhundruð) rkd.

Jarðamat: Norður-Múlasýsla. 1849-50

Hér er birt lýsing á búskapi og landi á Litlabakka sem Ármann Halldórsson ritaði í fyrsta bindi Sveita og jarða í Múlaþingi sem kom út hjá Búnaðarsambandi Austurlands árið 1974. Aukið hefur verið í texta Ármanns með upplýsingum um síðustu 45 árin, m.a. úr nýrri útgáfu Sveita og jarða frá 1995.

Túnakort teiknað af Metúsalem Stefánssyni árið 1920. Sótt á http://manntal.is/myndir/Tunakort/Mulasysla/N-Mulasysla/Tunguhreppur/Vefmyndir/Tunguhreppur_001.jpg

Gamalt

Fornir túngarðar. Elstu matjurtargarðar frá um 1890, voru ræktaðar gulrófur aðallega. Garðrækt fyrst og fremst til heimilisnota en stundum nokkuð til sölu. 1896-1930: Þaksléttutími. Búnaðarfélag Tunguhrepps átti fyrstu ristuspaðana og kvíslarnar sem komu í sveitina. Hestaverkfæri tekin í notkun stuttu eftir aldamót (plógur og tindaherfi) eign búnaðarfélags. Allt túnþýfi var þaksléttað. Um 1912: Kerra. 1912-1914: Fráfærur hætta og sauðaeign um svipað leyti. 1915: Fyrsta þakjárn, á Gildrugerðishús.

Fasteignamat 1918: Tún 2,5 hektarar, hálft slétt, hálent, holótt og brunagjarnt í þurrkasumrum. Girt á þrjá vegu. Taða 100 hestburðir, úthey 200 hestburðir, matjurtagarður 150 fermetrar. Áhöfn 3 nautgripir, 7 hross, 220 fjár; 2 karlmenn og 2 konur til heyskapar. Jörðin talin þola 300 fjár. Ásetningur 2,5 baggar á ána, hross 6 hestar.

1925-1930: Fyrst tilbúinn áburður í smáum stíl. Um 1927: Gaddavírsgirðing um tún. Nú girt tún og nágrenni. Um 1929: Hestasláttuvél. Rétt fyrir 1930: Fyrsta steypa, votheysgryfja og baðþró í garða. 1931-1932: Unnin fyrsta sáðslétta með hestaverkfærum. Diskaherfi um þetta leyti. Kreppan hafði lamandi áhrif á efnahag, bústofn dróst saman. 1940-1945: Rakstrar- og snúningsvél. 1943: Rifin 80 hesta kringlótt hlaða. 1944: Fyrsta vinnsla með dráttarvél, W4 vél Búnaðarfélags Tunguhrepps vann í 17 klst. sáðsléttu, stærð óþekkt. 1946: Fyrst unnið með jarðvinnslutækjum. Upp úr 1950: Vart garnaveiki. Olli miklu tjóni. 1957: Rússajeppi, mikið notaður við bústörf. 1962-1970: Mikið kal flest ár, mest 1970. Meðalheyskapur miðað við túnstærð 800-1000 hestar, varð þessi ár 100 hestar. 1969-1970: Bústofni fækkaði verulega. 1970-1987: Ný tún unnin og fjárstofn stækkaður, tæplega 400 á vetrarfóðrum um 1983. Engir nautgripir eftir 1980. Heyvinnslutækjum fjölgað jafnt og þétt fyrir þurrhey og baggabindivél keypt. Riða greind á bænum 1987 og allt skorið niður þá um haustið. Fjárlaust í þrjú ár. 1990-2000: Keypt fé úr Öræfum fyrir nýjan bústofn. Fjölgað upp í 250 fjár. 2000-2010: Byrjað að heyja í rúllur. Fjárstofn óbreyttur. 2010-2020: Fækkað í fjárstofni sem telur nú um 70 ær á vetrarfóðrum.

Eldri hús

Gamli bærinn sneri fjórum burstum fram á hlað, bæjardyr og stofa í sömu tótt, eldhús, búr og skemma. Portbyggð baðstofa bak við, 6×12 álnir (3,8×7,5m), byggð um 1890. Reisifjöl á öllum bæjarhúsum, máttarviðir flestir úr rekatrjám. Bærinn var rifinn 1930. 5 hlöður 1917. Eldsneyti: Tað til 1952, þá kokseldavél og olíukynding. Dísill 1966. Samveiturafmagn 1971. Vindrafstöð kom um 1940, notuð til að hlaða rafgeyma en ekki til ljósa, entist til 1945.

Steinhús

Steinhús reist 1929-1930. Tvær hæðir og kjallari, grunnflötur 7,9×6,5m. Arkitekt Jóhann Franklín Kristjánsson. Byggt hjá gamla bænum. Útihús: Fjárhús byggð 1942 fyrir 200 fjár og skálahlaða 1943, 360 fermetrar. Steypt fjós fyrir 8 kýr 1962 og fjóshlaða 300 fermetra árið 1970. Stálgrindahús fyrir 400 fjár með steyptum áburðarkjallara byggt 1977 við hlið gömlu fjárhúsanna sem voru rifin fáum árum seinna.

Reiturinn

Heimagrafreitur var gerður árið 1914. Staðfestur með konungsbréfi. Þar var fyrst jarðaður Sigbjörn Björnsson 6. janúar 1915. Leyfisbréf konungs til handa Vilborgu Stefánsdóttur, ekkju Sigbjörns er undirritað 15. apríl 1915 í Reykjavík.

Samgöngur

Einkavegur kom frá Stórabakka árið 1940 en fram að því voru hestagötur. Sveitasími kom 1950 og frá 1964 fram til um 1980 var landsímastöð fyrir Hróarstungu. Útvarpsviðtæki var keypt árið 1934 og sjónvarp árið 1969.

Landlýsing

Landamörk við Hrærekslæk eru yst á Hagholti niður við Jökulsá og þvert austur í Hrærekslækinn, sem heitir Græfnalækur þar sem hann liggur að landi Litlabakka. Lækurinn deilir síðan löndum Litlabakka og Hallfreðarstaðahjáleigu inn í krók niður af Hallfreðarstöðum og þaðan liggja mörkin nokkurn veginn beint áfram í vörðuna Píku á Hálsenda og frá henni móti Stórabakka þvert niður í Jöklu nokkuð mitt á milli bæjanna og er skurðgröfuskurður á mörkunum.

Eftir miðju landinu liggur ávalur háls frá suðri til norðurs, hæstur út og upp frá bæ (70 m), en árbakkinn út og niður af túni er 20 m.y.s. Í hálsinum skiptast á mýrar og mólendi en báðum megin við hann eru víðáttumikil mýrarflæmi vestur að Jökulsá og austur að Græfnalæk. Landið er skjóllítið og nýtist því illa vetrarbeit, engjar þýfðar og reytingssamar, aðallega í útjöðrum mýrarflákanna, nokkuð votar víða. Fjárhættur voru víða í tjörnum sem nú hafa verið grafnar fram. Allt land jarðarinnar er ræktanlegt en þarf víða framræslu og jörðin er betur fallin til nautgriparæktar en sauðfjárbúskapar. Upprekstrarland vantar og áður var rekið til afréttar norður yfir Jöklu á Jökuldal. Þangað lögðu margir Tungubændur menn í göngur og tóku þær ferðir 2-4 daga frá Litlabakka.