Kveðskapur

Orðin geyma minningar um fólk sem bjó hér í húsum sem flest eru horfin og gekk um götur sem nú eru grónar.

Páll Ólafsson orti eftirmæli þegar Guðfinna Stefánsdóttir, systir Vilborgar, drukknaði í Jöklu 1874.

Hver er sá er situr / seint að kvöldi / ískaldur á ísi / hjá auðri vök, / bíður þar og bendir / að barmi vakar / fylgdarlausri ferðastúlku / gengur svo á móti gangandi mey / og blindar hana á báðum augum, / leiðir síðan í sárkalda vök / blessað barnið á bezta aldri?
Hvað er sönn sæla / sé það ekki / að feta fús heim / til föður húsa, / þar sem fagna faðir og móðir, / frændur og systkin / og fólkið allt? / Þó er nú sæla sýnu meiri / fyrir að finna þann fylgdarmann, / sem að leiðir mann / (þá er ljúft að villast) / glaðan óvörum í guðs ríki.
Þar sem frelsarinn fyrir bíður / og knésetur ið kæra barn, / blessar það og kyssir / og að barmi sér vermir / nývaknað úr vök kaldri.

[Páll Ólafsson. 1899. Ljóðmæli. I. bindi, bls. 81-82. Jón Ólafsson, Reykjavík.]
Á Litlabakka í Hróarstungu

Á Litlabakka ljómar vítt
af ljósi dags og mána.
Á Litlabakka er landið frítt
og liggur fast við ána.

Á Litlabakka leikur sól
við ljúfa sumarblæinn
og Hlíðarfjöllin færa skjól
og fegurð yfir bæinn.

Og feður mínir tóku tryggð
í tímans striti þungu
við aldalanga ættarbyggð,
alla Hróarstungu.

Og hvar sem ég í huga geng
á hinum fornu slóðum
ég mæti bæði mey og dreng
og með þeim englum góðum.

Líklega ort af Einar Stefánssyni Scheving frá Hrærekslæk. Skrifað upp eftir handriti sem varðveitt er á Litlabakka.

Rokk á spinnur rösklegt kvinnuefni
unga mærin, Málfríður,
mengi kær og gullfögur.
 
Litlabakka unir á
auðar sólin hlýju,
móður líkust menn það sjá
Málfríður Stefaníu.
 
Fjórtán ára fermd í vor,
fögur verður drósin.
Giftingar þá gengur spor,
glöð við ástar ljósin
 
Skúli dafnar horskur hér
hýr á Litlabakka.
Ættarnafnið ágætt ber,
eignast ríkan sprakka.
 
Ei sem mæta örlög grimm
eignast marga krakka.
Af systkinum er hann fimm
yngstur á Litlabakka.

Símon hefur sofið vel
sæll á Litlabakka
frí við rauna rosaél
í rúmi ungra sprakka
 
Sem í blunda systur tvær,
Sigurbjarnardætur,
voðum undir mjúkar mær,
mætar heimasætur.
 
Veittu skáldi væran dúr
vermdu þanka hljóða.
bráða holdi beggja úr 
baktiríu góða.

Gott Málfríður hlýtur hól
hér á meðal lýða.
Glansar ung á grænum kjól,
gullbaugs rósin fríða.
 
Fagurt hár í fléttur ber,
fjörgar skáldsins anda,
tuttugu ára og tveggja er
tróðin gullinbanda.
 
Stefanía frí við fár.
fögur hennar systir,
hefur lifað átján ár,
iðkar kvennalistir.
 
Undra hárprúð ástafjörg,
yngismeyjan hreina.
Sextán ára blómleg Björg
bráðum töfrar sveina.
 
Bjarnarsonur Sigurbjörn
situr Litlabakka.
Á sér konu og fimm börn,
einkar væna krakka.
 
Búskap drífur áfram æ
og mitt sinni gleður,
ósérhlífinn blómgar bæ
betri kvinnu meður.
 
Mikið vinnur vaxtar smá,
Vilborg Stefánsdóttir,
hans er kvinnan blíð á brá,
búskaps þróar gnóttin.

Vísur um heimilisfólkið á Litlabakka. Vantar þó vísur um Björn Sigbjörnsson. Ort af Símoni Dalaskáldi, líklega 1912. Skrifað upp eftir eiginhandarriti sem varðveitt er á Litlabakka.

Litlabakka-Skotta sem Sigfús Sigfússon segir frá í þjóðsagnasafni sínu

Það hefur verið sumra álit, að hún væri sama og Mývatns-Skotta og kæmi austur með þeim sömu frændum sem Spæla fylgir. En aðrir bera á móti því og segja að hún sé stúlka sem drukknað hafi þar í Jökulsánni eða farist voveiflega á annan hátt og gengið svo aftur. Þetta þykir nú sennilegra því að Skotta hefur orðið þarna mesta þarfagrey og um síðir að bæjarfylgju. Sagt er að hún væri ærsmali þeirra sem hún fylgdi upphaflega. Þykir slíkt fágætt. Er þar alls ekki vinnukonulaust meðan hún er. Þórdís, dóttir Árna prófasts Þorsteinssonar að Kirkjubæ, var gáfuð og skáld. Hún giftist aldrei og var oft af kölluð jómfrú Þórdís. Hún hafði mjög á móti tilveru drauga. Það bar til að Þórunn, dóttir Páls sýslumanns Guðmundssonar, kom til Þórdísar og með henni kunningjakona þeirra, Björg Guðmundsdóttir er átti Þorstein son Melsteins-Þóru og síðar Sigfús að Straumi Þorkelssonar. Þær tóku tal saman og barst í tal um drauga, einkum Skotturnar. Þórdís neitaði tilveru þeirra allra og var beiskyrt. Þórunn kvað þær mundu vera til. Þórdís kvað lítils háttar von um tilveru Eyjafjarðar- og Litlabakka-Skottu en engra annarra. Þórunn kvað þær miklu fleiri. Þá sagði Björg: „Ef þær eru til tvær þá held ég að þær séu þrjár.“ Eftir það fara þær Björg í brott. Þegar Þórdís var háttuð þykist hún vaka í herbergi sínu. Var það draumur. Finnst henni hún standa á gólfinu og styðja annarri hendi á kommóðu sína. Henni þótti bjart í húsinu. Allt í einu verður þar koldimmt, sem torfu væri skellt á gluggann. Hún þykist kalla: „Hver er þar?“ Henni þykir sér svarað: „Það erum við.“ „Hverjar þið?“ þykist hún segja. „Við Skotturnar,“ er svarað. „Þið eruð þá tvær,“ heyrðist henni þá sagt enn úti: „Já, því við erum þrjár.“ Þá kallar Þórdís upp: „Já, nú þykir mér sannast það sem Björg mín sagði,“ og við það vaknaði hún og kom þar þegar Halldór frá Litlabakka. Giskuðu menn á að þær hefðu slegið saman Litlabakka-Skotta, Eyjafjarðar-Skotta og Sigmundar-Skotta eða þá Stekkjar-Skotta sem sagt er að fylgi Jóni bónda að Skriðustekk. Hún kvað vera komin norðan úr landi. Árni Björn Arnbjarnarson sterki kvaðst hafa séð hana gengna upp að hnjám og loftaði undir stúfana sem því svaraði. (Sagnir úr Hróarstungu)

Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir. 11. Bindi; 2. útgáfa. Rits. Óskar Halldórsson og fl. (Reykjavík: Þjóðsaga hf.,1982-1993), II, 340.

%d bloggers like this: