Upptúnið
Ég varð þeirri stund fegin þegar baggabyltingin hóf innreið sína í sveitina. Þá hurfu sáturnar og baggavagninn tók við. Verst að baggarnir voru svo þungir að ég gat vart lyft þeim. En með hverju árinu óx mér ásmegin og ég fór að geta loftað þeim, nema helvítis arfaböggunum. Þeir voru þungir sem blý og gátu kveikt í hlöðunni þegar hitnaði í þeim. Þess vegna fengu þeir nú yfirleitt að liggja lengur úti nema spáð væri úrhelli.
Á þessum árum voru stundum börn af mölinni í sveit hjá okkur á sumrin. Eitt sumarið vorum við þrjú á svipuðu reki sem opnaði nýjar leiðir til leikja. Fábreytt líf mitt fylltist af fjöri með þessum Reykjavíkurkrökkum. Og ekki var verra að stelpan var ótrúlega sæt með suðrænt yfirbragð enda faðir hennar frá Spáni. Strákurinn var frændi mitt og aðeins yngri, rauðhærður og freknóttur. Það varð okkar keppikefli að heilla brúneygðu prinsessuna með öllum ráðum.
Þegar búið var að binda á Upptúninu var einmunablíða og ekkert stress að hirða baggana. Við krakkarnir gátum því rúllað saman eins mörgum og við þurftum og reist virki úr þeim. Enda eru gamaldags baggar eins og stórir legókubbar og gott byggingarefni. Í þessu kastala lékjum við okkur í nokkra daga. Prinsessan sat í höllinni og lagði fyrir okkur vonbiðlana hinar ólíklegustu þrautir eins og í ævintýrunum. Í verðlaun fengum við koss. Sakleysi æskunnar var alsráðandi. Og þarna á Upptúninu, inni í baggavirkinu, skoðuðum við virkni líffæra sem ekki mátti nefna á nafn svo fullorðna fólkið heyrði til.