Flatiklettur

Einu sinni sem oftar var ég í gæsareggjaleit út með Hálsi. Ég var á leiðinni heim og blái nælonbakpokinn orðinn þungur auk þess sem úlpuvasanir voru líka úttroðnir af eggjum. Þetta var fermingarvorið mitt svo að ég þurfti að tína meira en vanalega í allar kökurnar sem mamma ætlaði að baka fyrir veisluna mína. Þegar ég kem upp fjárgötuna að Flatakletti flýgur upp enn ein gæsin. Það eru þrjú egg í hreiðrinu en ég hef bara pláss fyrir eitt. Þá ákveð ég að gera tilraun. Mér hafði verið kennt að það þýddi ekkert að skilja eftir egg í grágæsarhreiðri því að hún yfirgæfi eggin ef að búið væri að koma við þau. Mamma hafði þessa speki eftir pabba sínum og afi sjálfsagt eftir langafa. Kenningin var sú að betra væri að taka öll eggin því að gæsin verpti aftur í tómt hreiðrið.

Ég stakk því einu eggi á mig en faldi hin tvö áfram undir mosa og dúni hreiðursins.

Tveimur dögum seinna gekk ég út að Flatakletti til að gá að hreiðrinu. Enga sá ég gæsina og eggin voru enn í hreiðrinu eins og ég hafði skilið við þau. Þau voru köld. Kenningin hans afa var þá rétt eftir allt saman. Ég ákvað að leyfa eggjunum að vera áfram en tók ofan af þeim huluna til að efna í aðra tilraun. Nú ætlaði ég að sjá hvað krummi væri lengi að finna þau. Daginn eftir lagði ég leið mín enn á ný út að Flatakletti. Engin gæs en í því ég kem í augsýn við hreiðrið flýgur krummi upp. Og hann ætlar ekki að láta mig ræna sig matnum. Hann hefur skorðað gæsareggið kirfilega uppi í gogginum og svífur með það í burt. Ætlar trúlega að færa ungum sínum í Forvaðanum björg í bú. Ég horfi á eftir hrafninum meðan ég geng að hreiðrinu. Hreiðrið er tómt. Eggjaræningjarnir hafa lokið verki sínu. Einu ummerkin eru brotið gæsaregg sem liggur uppi á Flatakletti. Krummi hefur klárað úr því. Fermingin mín er ekki fyrr en um Hvítasunnu.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: