Fitin

Bærinn heima stendur á brekkubrún. Neðan við brekkuna er flatlendi með mýrgresi og þar eru bæði gamlir handgrafnir skurðir og yngri vélgrafnir. Þessi flati er kallaður Fitin. Sennilega vegna þess að áður en byrjað var að ræsa fram voru þarna skörp mörk mýrarinnar og brekkunnar.  Það eimir enn eftir af þessum bakka yst í Fitinni og síðan neðan við Gamlabrunn þar sem hið skammlífa reykhús stóð. Í minningunni er Fitin bráðnauðsynlegur flati fyrir neðan bröttu brekkuna þar sem ég lærði renna mér, fyrst á sleða og síðar á skíðum. Það voru til heimasmíðaðir trésleðar þegar ég var lítill. Ætli afabróðir minn hafi ekki smíðað þann sem ég renndi mér á fyrst. Það var neglt járngirði neðan á meiðana og í góðu færi gat maður komist á mikla ferð, sérstaklega á harðfenni. Seinna fékk ég snjóþotur úr plasti frá pabba og mömmu en þær voru gjarnar á að brotna í lendingu eftir flugferðir á snjóhlöðnum stökkpöllum.

Fyrstu skíðin mín voru úr tré og það voru leðurbindingar á þeim. Ég held að mamma og systir hennar hafi átt þau fyrst og svo eldri systkini mín. Maður spennti Nokiastígvélin föst með leðurólum og þá var hægt að leika Ingemar Stenmark. Ég einbeitti mér samt meira að bruni heldur en svigi enda bauð skíðabúnaðurinn vart upp á miklar beygjur án þess að hætta á fótbroti. Þess vegna var gott að geta treyst á Fitina til að taka við manni á fleygiferð úr brattri brekkunni.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: