Lauflágarbrekka
Landið heima er skógi skroppið. Norðvestan garrinn og dalgolan hafa séð fyrir þeim hríslum sem lifðu af vetrarbeitina. Örfáar kræklóttar birkihríslur standa norðan á hálsinum rétt hjá landamerkjum við Hrærekslækinn innan við Þrívörður. Þær eru nógu háar til að kindurnar ná ekki að éta af þeim allt laufið. Austan á hálsinum finnst ekkert nema víðir í mýrunum. En hér áður fyrr þótti gott að hafa víðilauf og lyng í úthagaheyinu og ég tengi hið syngjandi örnefni Lauflágarbrekka við það. Móðir mín sagði mér frá engjaheyskapnum hjá Engjahól og austan hans. Víðast hvar þurfti að slá með orfi og ljá en í Lauflágarbrekkunni var svo sléttlent að þar var hægt að slá með hestasláttuvél. Mínar minningar um þessa brekku tengjast smalamennsku og vélhjólum. Í þurru hausti þyrlaðist upp laufið þegar maður gaf hjólinu inn á sléttu landinu.