Reiðhóll
Gamla gatan inn með Stórabakkahálsi er vel sýnilega enn í dag. Sumstaðar sem vegslóði, annars staðar sem hestagata. Rétt við Elftingarennið er hóll við grónar göturnar sem kallast Reiðhóll. Nokkru innar í landi Stórabakka er svipaður hóll sem heitir Kollóttimelur. Það er ólíku saman að jafna heitunum á þessum tveimur mishæðum. Og þó að pabbi hafi sagt mér sögur af því þegar hann sem kennari á Stórabakka fór með skólakrakkana og lét þau renna sér niður Kollóttamel þá finnst mér meira spunnið í Reiðhól. Ég veit ekki alveg hvers vegna. En alltaf þegar ég kem að honum verður mér hugsað til Páls Ólafssonar. Ég sé skáldið fyrir mér á Litla-Rauð koma ríðandi eftir götunni að kvöldlagi. Hann er að koma ofan af Jökuldal og hallast aðeins í hnakknum. Hesturinn þarf annað slagið að hlaupa undir hann til að varna því að hann falli úr hnakknum. Við Reiðhólinn stígur Páll af baki, gengur upp hólinn og fær sér sæti í móti kvöldsólinni sem er í þann mund að síga bak við Norðurfjöllin. Hann fær sér sopa úr koníakspela og yrkir eina stöku sem hann fer með fyrir sjálfan sig. Litli-Rauður bítur neðan við hólinn á meðan og bíður húsbónda síns. Um leið og sólin er skriðin bak við fjöllin er stigið aftur á bak og riðið hratt spottann heim í Hallfreðarstaði.
Ég reyndi einu sinni að leika þetta eftir. Lagði skellinöðrunni við rætur Reiðhólsins og baðaði mig í kvöldsólinni. En mér gekk illa að yrkja. Sennilega vegna þess að enginn skáldamjöður var með í för hjá fermingardrengnum. Við sólsetur ók ég út göturnar í átt til Hallfreðarstaða en stytti mér leiðina heim í gegnum Gildrugerði.