Örnefnaskrá

Skrásetjari: Eiríkur Eiríksson, 1970. Stuðzt er við skrá Ara Gíslasonar frá 1962.
Skráning örnefna
Nú hafa þeir Björn Sigbjörnsson og Skúli Sigbjörnsson, bændur á Litlabakka, gefið nánari upplýsingar, einkum um landamerki og örnefni í túni. Björn Sigbjörnsson er fæddur á Litlabakka árið 1900 og hefur alltaf átt þar heima. Skúli er bróðir Björns, fæddur 1904. Hann hefur alltaf átt heima á Litlabakka. Afi þeirra bræðra. Stefán Sigurðsson (sjá landamerkjalýsingu), flutti í Litlabakka 1874, en jörðin hefur verið lengur í eign ættarinnar, óvíst hvað lengi.
Þá er fyrst skráð afrit af landamerkjaskrá frá 1884:
No 1885.
Landamerki milli Litlabakka og Hrærekslækjar eru samkvæmt samningi, er eigendur nefndra jarða gjörðu milli sín 6. júní 1884. Bein sjónhending úr landamerkjavörðu þeirri, sem stendur á svonefndu Hagholti við Jökulsá. Þaðan beina stefnu austur í þúfu, sem stendur yzt á svoköllðum Markmó, þar sem hann er hæstur, þaðan sjónhending eftir sömu mörkum austur í svokallaðan Græfnalæk. Milli Hallfreðarstaða og Litlabakka ræður Græfnalækur fram í Grænukeldu, þá ræður Grænakelda að vörðu, sem hlaðin er, þar sem Grænakelda hættir, þá ræður sjónhending í stóran stein, er stendur norðan á svokölluðum Nóntanga, þaðan aftur sjóhending í vörðu þá, er Píkuvarða heitir og stendur á kletti fyrir framan og sunnan kirkjuveginn. Svo ræður sjónhending úr Píkuvörðu og í vörðu þá, er hlaðin er framan við Lækjardalinn, úr þeirri vörðu sjónhending í Rauðalækjarfoss, þaðan beint í vörðu við Jökulsá, og eru það landamerki milli Litlabakka og Stórabakka.Aths. Jafnvel þó að beitarhússtæði frá Litlabakka á svonefndum Geirsstöðum sé of nærri Hrærekslækjarlandi, má þar óátalið byggja samkvæmt samningi eigenda nefndra jarða frá 6. júní 1861.
Litlabakka, 21. júní 1884
Stefán Árnason (eigandi Hrærekslækjar)
Stefán Sigurðsson (eigandi Litlabakka)
Páll Ólafsson (eigandi Hallfreðarstaða)
Þinglýst á Fossvallamanntalsþingi 5. júní 1885 og innfært í landamerkjabók Norður-Múlasýslu, bls. 62-63.
Einar Thorlacius
Gjald til landsjóðs
a þinglýsing kr. 0,75
b bókun – 0,25
= kr. 1,00 = ein króna E. Th.
Athugasemd skrásetjara:
Hallfreðarstaðir og Hallfreðarstaðahjáleiga voru á þessum tíma með sameiginleg landamerki (sjá landamerki þeirra jarða).
Að NV ræður Jökulsá á Dal landamerkjum milli Litlabakka og jarða í Hlíðarhreppi. E.E.
Helstu áttamiðanir:
Norður = NV. Austur = SA. Inn eða fram = SV. Út = N – NA. Niður, þ.e. niður að Jökulsá = NV. Upp. þ.e. upp frá Jökulsá = SA.
Þá verða talin örnefni í túni á Litlabakka. Á Litlabakka hefur lengi verið tvíbýli; bæirnir voru kallaðir Efri- (1) og Neðribær (2). Þar sem Neðribærinn var, er nú íbúðarhús á Litlabakka. Efribærinn var utar og ofar á túninu; nú er búið að slétta yfir hann.
Norður frá Neðribæ var kallað Halakofatún (3). Þar var fjárhús kallað Halakofi (4), nú aflagt. Út og niður frá bæ (Neðribæ) var kallað Hólhústún (5) frá gömlum túngarði, sem enn sést móta fyrir, og heim að bæ. Þar var fjárhús, sem kallað var Hólhús (6). Það stóð norðan við fjárhúsin, sem nú eru.
Ofan við Hólhústún er kallað Efribæjartún (7). Þar stóð Efribærinn (áðurnefndur). Það hét svo að heimagrafreit, sem er í túninu upp af íbúðarhúsinu. Þar fyrir innan heitir Melkofatún (8). Þar er Kvíahóll (9); yfir hann liggur símalínan, og 4. staur frá bæ er á Kvíahólnum. Suður frá bæ stendur enn fjárhús, sem heitir Melkofi (10). Austan við þjóðveg (austur af bæ) er nýrækt, sem kölluð er Mótún (11). Inn af bæ er framræst nýrækt, ca. 5 ha., þar er uppsprettulind, sem heitir Gvendarbrunnur (12), kenndur við Guðmund Arason (góða) biskup á Hólum; þar var tekið neyzluvatn í Neðribæinn. Innan við Gvendarbrunn var hesthús, kallað Stjörnukofi (13).
Þá verða talin örnefni á Litlabakka.
Land jarðarinnar liggur meðfram Jökulsá (14), og hallar því að mestu leyti að ánni frá lágum ás austan við túnið. Þessi ás nær frá Lækjardalstanga (sjá síðar) og þvert yfir Litlabakkaland. Þessi ás er kallaður Litlabakkaháls (15), þó oftar aðeins Háls (16). Austan við Hálsinn er Hallfreðarstaðablá (17). Eftir henni rennur Græfnalækur (18) á landamörkum (sjá landamerkjalýsingu).
Jökulsá (áðurnefnd) rennur NV við landið, straumþung, um víðáttumiklar eyrar milli lágra bakka. Á landamörkum Litlabakka og Hrærekslækjar gengur klapparholt niður að ánni, sem heitir Hagholt (19). Á því er landamerkjavarða, sem fyrr segir. Austan við holtið er mýrarflæmi, sem nær óslitið inn fyrir neðan tún inn undir mörk á móti Stórabakka. Það heitir Hagholtsblá (20). Yzti hluti bláarinnar er í Hrærekslækjarlandi. Ofan við blána er ás nafnlaus; á honum er varða á landamörkum, sem heitir Merkivarða (21). Á þessum ás, stuttan spöl innan við landamörkin, eru rústir af eyðibýli, sem heitir Geirsstaðir (22). Þar voru síðar beitarhús frá Litlabakka, nú aflögð. Hagholtið (áðurnefnt) hefur verið afgirt með torfgarði og hefur tilheyrt þessu býli. Í Hagholtsblánni niður frá Geirsstöðum er hvammur við ásinn, sem heitir Votihvammur (23). Þar ofan við, á ásbrúninni, er áberandi stór steinn, nefndur Geirssteinn (24). Inn og upp frá Votahvammi er varða, sem heitir Kýrvarða (25) (Kervarða (26)). Þar innar taka við slétt svæði í blánni við ásinn, sem heita Kýrvörðuker (27) (Kervörðurker 28)). Ofan við Kýrvörðu er Flatiklettur (29). Þar upp af er Hálsinn (áðurnefndur). Vestur af Flatakletti er Ingimundarholt (30); ofan við það meðfram Hálsinum er nafnlaust mýrarsund rétt utan við túngirðinguna, sem nú er. Nokkuð ofar á Hálsbrún er klettabyrgi, heitir Byrgi (31).
Örstutt utan við tún eru hæðir, sem heita Efrahvarf (32) og Neðrahvarf (33). Þessir staðir eru nefndir svo, af því að þegar farið er yfir þessar hæðir, er komið í hvarf við bæinn. Framan í brúninni á Efrahvarfi eru tveir steinar nokkuð áberandi. Þeir eru vanalega nefndir Steinarnir (34); Steinarnir á Efrahvarfi (35). Á ásnum, sem nú hefur verið lýst nokkuð, voru margar vörður á beitarhúsaleið til Geirsstaða (sjá áður). Neðan við Efrahvarf, nær túni, er klettahæð, sem heitir Einbúi (36). Neðan við hann er mýrarhall niður að blánni, kallað Hall (37).
Neðan við Hagholtsblá, nokkuð innan við Hagholt (áðurnefnt), eru hæðir við Jökulsá, sem heita Sandhæðir (38). Niður frá túni er Stekkjarnes (39). Við ána upp frá því eru rústir af Stekk (40). Þar innar niður af bæ er Grásteinsbali (41); þar er Grásteinn (42). Bakkarnir við Jökulsá eru þarna skörðóttir og eru nefndir Skörð (43). Þar innar er dæld, nefnd Skvompa (44). Þar rétt við eru pollar, sem kallaðir eru Döp (45). Þá er fjær ánni hóll, sem heitir Veghóll (46). Innan við hann er kallað Sandskeið (47). Þarna var vegur áður fyrr.
Framan og neðan við túnið á Litlabakka er klettahryggur, sem heitir Lest (48); dregur nafn af því, að hann líkist hestalest tilsýndar. Upp af þeim hrygg er grýtt hæð, sem heitir Hraun (49). Inn af því, neðan við þjóðveginn, eru smáklettar, nefndir Strýtur (50). Þar innar er Miðhóll (51). Þar skammt fyrir innan er skurður, sem er á landamörkum Litlabakka og Stórabakka.
Þá eru talin örnefni á milli Jökulsár og Litlabakkaháls (áðurnefnds).
Austur af Merkivörðu (sjá áður) heita Hæðir (52). Austan við Hæðir, við Græfnalæk (áðurnefndan), heitir Markmór (53). Spölkorn austur af Geirsstöðum er á flötu holti Geirsstaðavarða (54). Austur af henni er önnur varða, sem heitir Sigvarða (55). Nokkuð inn af Sigvörðu er Háavarða (56).
Inn af Markmó heitir Lauflágarbrekka (57) austan í Hálsinum, og innan við hann er Háabrekka (58). Talsvert innan við þá brekku er Grásteinn (59) norðan við Græfnalæk. Þar inn af gengur mór út í blána, sem heitir Stórimór (60). Þar fyrir innan er Systramell (61) beint austur frá bæ. Þar er sagt, að tvær systur hafi orðið úti, en engin nánari atvik eru kunn að því slysi. Á Hálsinum ofan við túnið er Engjahóll (62). Út af honum er varða, sem heitir Gildruvarða (63).
Þá eru talin örnefni utan við þjóðveg, sem liggur þvert yfir Hálsinn og Hallfreðarstaðablá að Hallfreðarstöðum. Verða nú talin örnefni innan við þjóðveg.
Inn og upp af bæ (austan vegar) er hæð, sem heitir Torfholt (64). Inn af því er varða, kölluð Stekkjarvarða (65). Þar skammt frá var Stekkur (65a). Þar inn af, austur frá Miðhól (áðurnefndum), er hæð, sem kölluð er Fjárdrápsholt (66). Þetta holt er í mýri, sem heitir Stekkjarblá (67). Stekkjarblá nær upp að Stórabakkahálsi (68) yzt. Þar norðan í Hálsinum (69) er mýrarhall, kallað Elftingarenni (70); það er á landamerkjum. Í jaðri þess við gamlar götur frá Stórabakka er hóll, sem heitir Reiðhóll (71). Þar upp af er klettabelti, sem heitir Skógaröxl (72), að mestu leyti í Stórabakkalandi. Þarna rennur smálækur, sem heitir Rauðilækur (73); hann er að miklu leyti í Stórabakkalandi, en er á landamörkum norðan í Hálsinum. Þar er lítill foss, Rauðalækjarfoss (74).
Bak við (austan við) Skógaröxl er dalskora, sem heitir Lækjardalur (75) og nær út í Hallfreðarstaðablá. Austan við Lækjardal er varða á landamörkum, sem kölluð er Píkuvarða (76) eða Píka (77) (sjá landamerkjalýsingu). Út af henni er Skeiðarenni (78). Norðan við Lækjardal er hæð, sem heitir Lækjardalshryggur (79). Hryggur þessi er kallaður Högg (80) á Hallfreðarstöðum. Út af Lækjardalshrygg, sem nær út í Hallfreðarstaðablá, eru smátjarnir í blánni; ein þeirra heitir Fjárdrápstjörn (81). Yzti endinn á Lækjardalshrygg heitir Lækjardalstangi (82).
Yzti hluti af Stórabakkahálsi er kallaður einu nafni Hálsendi (83) og tilheyrir bæði Litlabakka og Hallfreðarstöðum. Norðan í Lækjardalshrygg eru rústir af beitarhúsum frá Litlabakka, sem heita Hálsendahús (84). Beint út af Hálsendahúsum er varða, kölluð Digravarða (85). Nokkuð utan við Digruvörðu eru beitarhús frá Litlabakka, sem notuð eru enn í dag. Þau heita Gildrugerði (86). Þetta er gamalt eyðibýli, og þar voru miklar rústir og hefur verið allstórt tún, girt með torfgarði. Engar heimildir eru um ábúendur þar, og ekki vitað, hvenær þetta býli fór í eyði. Óljós munnmæli segja, að þar hafi búið kona, sem hét Gildra. Gæti verið viðurnefni?
Utan við Gildrugerði gengur mótangi austur í blána, sem heitir Gildrugerðistangi (87). Út af Lækjardal er Grænakelda (88) í blánni (sjá landamerkjalýsingu); í hana rennur smálækur úr dalnum, nafnlaus.
Að lokum skal þess getið, að rétt utan við túnið er Kistusteinn (89). Í lægð utan við steininn er vatnsból frá Litlabakka, uppsprettulind nafnlaus. Þar fyrir neðan er smáhæð, sem kölluð er Guðmundarholt (90). Þar varð úti maður, sem Guðmundur hét. Missögn er í örnefnaskrá Ara Gíslasonar, að þessi brunnur sé kenndur við Guðmund biskup góða. Gvendarbrunnur er, sem fyrr segir, ca. 100 m innan við íbúðarhúsið á Litlabakka.



Litlibakki 2020

Litlibakki 1945