Græfur

Veiði er mér í blóð borin. Á heitum sumardögum hjólaði ég með veiðidótið mitt austur í Hallfreðarstaðablá og gekk meðfram Landamerkjaskurðinum út í Græfur. Þar átti ég mér ótal veiðistaði í læknum sem hafði grafið út djúpa hylji og hlykkjótan farveg gegnum mýrlendið löngu áður en skurðgröfur fóru þar um. Það leyndust mest urriðalontur í læknum en þó kom fyrir að stærri fiskur slæddist á land, sjógenginn birtingur eða gljáandi bleikja. Ég var ekki einn um að kunna vel við mig í þessum veiðilendum og deildi þeim með vinum mínum af nágrannabæjum og andskotans minknum. Minkurinn sótti í fiskinn eins og ég og spor hans sá ég iðulega á bökkunum. Mér var illa við samkeppnina og eitt haustið smíðaði ég minkagildrur eftir teikningu í Handbók bænda. Ég kom einum kassanum fyrir í Græfunum og notaði silung sem agn. Stór högni uggði ekki að sér og gekk í gildruna. Hann hvæsti og gaf frá sér sterka lykt þegar ég kom að gildrunni einn vetrardag vopnaður kindabyssu fyrir náðarskotið. Pabbi var stoltur af litla veiðimanninum þegar ég slengdi þeim stóra á tröppurnar heima. Ég er ekki frá því að veiðin í Græfunum hafi líka verið betri sumarið eftir.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: