Hagholtsblá II

Furðulegur fugl þessi jaðrakan. „Vaddúdí, vaddúdí, vaddúdí,“ heyrist gegnum gæsagargið þar sem við vorum í eggjaleit í Hagholtsblánni. Pabbi rifjar upp sunnlenska þjóðsögu um mann sem kom að á og var að leita að vaði þegar hann heyrði rödd segja sér að vaða út í. Maðurinn öslaði út í ána en sökk upp að höndum og skreið bölvandi upp á bakkann aftur. Þá heyrðist röddin segja: „Vittu, vittu, vittu.“ Maðurinn klæddi sig úr, vatt fötin sín og fór svo í þau aftur. Hann skimaði í kringum sig á meðan eftir þessum ruglaða leiðsögumanni en sá engan. Röddin hélt áfram: „Vaddekki, vaddekki, vaddekki.“ Maðurinn svaraði háum rómi: „Nei, ég ætla sko ekki að vaða aftur.“

Hálfhlæjandi öslum við pabbi bleytuna í blánni og skyggnumst eftir dúni í lyngi. Nokia stígvélin eru vel bætt í þetta sinn og halda fótunum þurrum svo að við tökum ekkert mark á ráðum hins langnefjaða jaðrakan sem flýgur í kringum okkur með hvellum söng: „Vittu, vittu, vittu!“

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: