Hagholtsblá I

Mýrlendið mikla utan og neðan við bæ, lagt bólstrum að vetri fyllist fuglasöng að vori. Hagholtsbláin með sínar lygnu tjarnir, stör í kerjum og lyngholt laðar að sér farfugla þegar frostið fer úr þúfnakollunum. Víðáttan er mikill fyrir æskusvein sem stekkur þúfu af þúfu svo að mýrarvatnið komist ekki inn um götin á gúmmístígvélunum. Pokinn á bakinu rúmar þrjátíu gæsaregg en í þetta sinn er hann næstum tómur. Vorið er kalt og gæsirnar seinar til varps. Ég er kominn óvenjulangt út í Blána. Húsið heima lítur út fyrir að vera lítill, hvítur klettur. Yfir höfði sveima gargandi gæsir og láta vita um óboðinn gest. Ég einset mér að snúa við þegar ég kem út að raflínunni sem þverar Blána með sínum tjörguðu grenistaurum. Þúfurnar fjaðra undir fótum mér og sum staðar er svo langt á milli þeirra að ég neyðist til að drepa niður fæti. Þá seytlar rauðleitt mýrarvatnið inn um götin á Nokia stígvélunum sem pabbi hefur ekki haft tíma til að bæta.

Ég heyri fuglahljóð sem ég kannast ekki við þegar ég kem að raflínunni. Rauðbrúnn vaðfugl á stærð við spóa lætur ófriðlega og hefur sig í frammi. Ég legg útlitið á minnið, ákveðinn í að fletta honum upp í Fuglum Íslands og Evrópu þegar ég kem heim. Blautur í fæturna með innan við tíu egg í pokanum kem ég heim úr Blánni og læt mömmu hafa fenginn. Flýti mér að finna grænu fuglabókina bróður míns sem er við það að detta í sundur af mikilli notkun. Ég fletti og finn út að nýi landneminn í Blánni heitir jaðrakan. –Undarlegt nafn atarna!

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: