Strýtur
Holt í mýrum hafa misjafna lögun. Sum eru flöt og grjótlaus á meðan önnur skaga hærra, krýnd vörðum eða stökum steinum. Hvert hefur sín sérkenni líkt og mannfólkið. Strýtur heitir eitt holtið sem ég lærði snemma að þekkja. Hallandi steinbrot standa upp úr því miðju líkt og tennur bergrisa. Áður en ég fæddist var búið að flytja veginn frá Lestinni og upp að Strýtum. Í minningunni stend ég við stofugluggann og bíð þess að pabbi komi heim. Ég fylgist með bílljósum sem hverfa á bak við Strýturnar. Velti fyrir mér hvort bergrisinn hafi lifnað við í haug sínum, orðinn svangur eftir árþúsunda svefn.