Lest
Gamli vegurinn er enn greinilegur framan við túnið heima. Hann var hlaðinn upp úr mýrinni þegar akvegur var lagður á Bökkunum. Reiðgöturnar lágu annars staðar. Nokkrir stórir steinar og klettanibbur standa upp úr einum hól sem vegurinn liggur yfir. Þar heitir Lest. Í huga vaknar gömul spurn því að í minningunni fann ég engin líkindi með Lestinni okkar og eimreiðum þeim sem indíanarnir rændu í svarthvítu vestrunum sem við pabbi horfðum stundum á saman í Normende tækinu. Seinna sá ég í þoku hvernig steinarnir röðuðust saman eins og hestalest á leiðinni heim – eða var hún á leiðinni burt?