Digruvarða

Digruvarðan rís hæst af öllum vörðunum fyrir framan og austan og ber í gróinn Hálsinn. Einhvern tíma hefur hún verið mikil um sig og borið höfuð og herðar yfir aðrar vörður. Þeir sem hlóðu hana forðum daga báru hellur og hentuga steina upp brattann. Nú hefur grjótið sótt heim aftur. Ég var samt smár við hlið hennar þegar litli fuglinn flaug út úr fylgsni sínu. Sama hvað ég rýndi milli steinanna, hreiðrið sá ég ekki, heyrði bara í ungunum þar sem þeir tístu og biðu þess að foreldrarnir kæmu með orm eða flugu. Ég ætlaði að bíða þolinmóður og fylgjast með því gerast. En þá varð mér hugsað heim og flaug í hug að mamma hefði bakað pönnukökur með kaffinu.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: