Gildrugerði
Beitarhúsin á Gerði voru fjárhúsin þar sem faðir minn hafði sitt fé fyrst þegar ég man eftir mér. Þangað var röskur hálftíma gangur að heiman. Mér var sagt að afi hefði gengið þangað til gegninga húfulaus í hvaða veðri sem var. Faðir minn notaði vélsleða á veturna til að fara austur á Gerði og ég fékk oft að fara með, en aldrei húfulaus þó að ég hefði verið skírður í höfuðið á afa. Fjárhúsin voru byggð inn í hól þannig að hlaðan var að hluta með moldarveggjum. Framan við hlöðuna voru tvö hús, hvort með tveimur króm og yfir þeim bogadregin bárujárnsþök, upprunnin í Bretabröggum á Reyðarfirði. Það var auðvelt að komast upp á þak og príla upp á topp. Stundum var hægt að renna sér eftir járninu og henda sér í skafl.
Á hörðu vori fæddist fyrsta kindin mín austur á Gerði. Það var svartur fjórlembingur sem var vart hugað líf en fóstraður sem heimalningur. Svarta Gimba var nafnið sem festist við hana, ættmóður fjárstofns míns. Hún var orðin gömul og tannlaus þegar ég tók henni gröf mörgum árum seinna – húfulaus.