Fremra Mótún

Ég man vel þegar við pabbi brutum land til að stækka Fremra Mótúnið á stóru jarðýtunni hans, gamla rauða Rollsinum. Stór steinn kom upp úr jörðinni, neðanjarðarálfahöll. Sennilega var eitthvert líf í steininum því að Þrándur gamli varð allt í einu galinn og stökk geltandi upp á jarðýtubeltið svo að pabbi varð að stöðva ýtuna. Steinninn endaði ofanjarðar og herfið fékk að vinna sitt verk óáreitt. Grettistakið stendur enn sem minnisvarði um túnvinnsluna.

Mótúnið var gjöfult og böggunum jafnan hlaðið í risastórt hey sem síðan var strengd ábreiða yfir. Milli stórra steina skammt þar frá átti ég leynistað með gömlu dóti. Einu sinni gerði svo mikið norðanrok að allt heyið fauk og baggarnir dreifðust um snæviþakið túnið. Þá bölvaði pabbi mikið en ég hrósaði happi að dótið mitt var enn á sínum stað milli steinanna. Nú er Mótúnið sinu vafið og steinarnir geyma fátt annað en fúaflísar.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: