Sandhæðir

Gamli vegurinn út í sveitina lá á Bökkunum. Veginum var ekki ýtt upp úr landinu eins og síðar tíðkaðist heldur ruddu fyrstu jarðýturnar sér leið gegnum gróið land og bjuggu til slétta slóð í sendna árbakkanna og malarhjalla frá ísöld. Í æsku minni var löngu hætt að nota þennan veg neðan við bæinn fyrir almenna umferð. En við bræðurnir nýttum hann til glannaaksturs á skellinöðrum og vélfákum. Sumstaðar var vindurinn búinn að feykja til sandi þannig að hallinn í veginum var 45 gráður. Þar þurfti að keyra varlega en þegar sú þraut var unnin og komið út á Sandhæðir var gefið í. Malarhjallinn marflatur og svo langur að hægt hefði verið að setja þar niður flugbraut. Stundum var freistast til að láta hjólin spóla í hringi. Og þó að vatn og vindar hafi máð út flest ummerki æskunnar get ég enn komið auga á torkennilega hringi á Sandhæðunum líkt og geimfar Tom Swifts hafi áð þar um stund.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: