Forvaði

Nafnið bendir til þess að áður fyrr hafi Jökulsáin fallið þétt að klettunum og þjóðleiðin legið fyrir neðan hamrana. Enn mótar fyrir grónum götum fyrri alda hvar þær koma að sendnum bökkum sem brotnar úr ár frá ári. Hamrarnir eru háir á kafla og uppi í þeim á hrafninn sér hreiður. Þeim laupum steypir enginn fyrir björg. Utan við Forvaðann tekur við harðvelli sem auðvelt er að ímynda sér að hleypt hafi verið eftir á þeim tíma er hetjur riðu skarti búnar um héruð. Þar tók ég líka skellinöðruna mína oft til kostanna og freistaði þess að komast í veg fyrir þrjóskar rolluskjátur. Sennilega var ég ekki nógu skartbúinn til að hrekja þær í rétta átt því að vanalega höfðu þær sitt fram og forðuðu sér í öruggt var neðan við Forvaðann.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: