Sláttulág
Landnámstún hétu þau í mínu ungdæmi en gengu undir spaugyrðinu Horvörn því að þeim var ætlað að forða Jökuldælingum frá sulti og seyru á kalárunum. Undir þessi tún fóru nokkur örnefni og eitt þeirra var Sláttulág. Hún mun hafa verið fremst í landinu heima áður fyrr en svo datt einhverjum í hug að færa landamerkjavörðu í skjóli myrkurs. En Sláttulágin var grasgefið harðvelli sem ungir menn á fyrri hluta tuttugustu aldar nýttu til knattspyrnu. Þess á milli fengu hestar að naga balann til að betra væri að rekja knöttinn.
Seinna skáru skurðir þennan völl til túnræktar og fótboltaiðkun Tungumanna færðist frá Sláttulág og inn undir Drjúgbeit. Það var þar sem ég spyrnti fyrst í bolta á velli með kalkeruðum línum. En kannski hefði ég orðið atvinnumaður ef völlurinn hefði verið áfram í landinu heima.
Nú má Sláttulágin muna sinn fífil fegurri og er alþakin fífu og hrossanál. Þar ganga engir hestar lengur og varla að gæsirnar drepi þar niður fæti.