Hólhústún

Bróðir minn keypti sér skellinöðru um fermingu enda enginn strákur í sveitinni maður með mönnum nema eiga slíkan grip. Hefðu þeir búið í þéttbýli hefði þetta þróast út í gengi en saklausir sveitapiltarnir létu sér nægja að þenja 50 kúbikka hjólin eftir malarvegunum og rótast í malargrúsum. Með allan minn vélaáhuga fannst mér bróðir minn skilja mig útundan þegar hann stakk af á nöðrunni. Eins og biluð plata spurði ég alltaf: Hvert ertu að fara? Og ég fékk staðlað svar: Ég er að fara til Ameríku. Sennilega þótti þeim frelsið sem skellinöðrurnar færðu þeim vera í ætt við amerískar bíómyndir sem þeir höfðu séð.

Vélhjólagengið í sveitinni heima óx upp úr skellinöðrum og í aflmeiri bifhjól og þeir fóru í lengri ferðir. Stundum fékk ég að sitja aftan á ef að þeir voru í góðu skapi. Og þá var nú gaman hjá litla bróa.

Norðan við gömlu fjárhúsin sem nú eru horfin heitir Hólhústún því að þar stóðu Hólhús í gamla daga. Af þeim sást ekkert þegar ég man eftir mér utan örlítil mishæð í túninum á einum stað, sennilega partur af gömlu torfvegg. Þessi mishæð var frábær til að æfa stökk á mótorhjólum og það nýttu þeir óspart, bróðir minn og vinir hans. Einn daginn fékk ég að sitja aftan á hjá djarfasta gaurnum og hann bauð mér upp á stökk á Hólhústúninu. Við tókum langt tilhlaup og svo komum við að þrepinu og tókumst á loft. Ég hélt fast utan um hann og þarna svifum við hátt yfir jörðu. Mér fannst ég þyngdarlaus eins og geimfari þar sem ég hékk í ökumanninum og tilfinningin var ólýsanleg. Eftir óratíma að mér fannst lentum við þegar þyngdaraflið dró hjólið til sín aftur. En þvílíkt stökk! Bróðir minn hafði beðið álengdar og fylgst með. Sennilega fannst honum nóg um glæfraskapinn hjá vini sínum. Allavegana skipaði hann mér af baki um leið og ég sagði við hann: Sástu hvað við svifum, brói? Þetta voru örugglega tíu metrar!

Ég átti seinna sjálfur eftir að nota þrepið atarna til stökkæfinga þegar ég keypti mér skellinöðru tólf ára gamall. En ég náði aldrei að svífa jafnlangt og þennan dag. Þess vegna lifir þyngdarleysið á Hólahúsatúninu enn í minningunni þó að mishæðin hafi með tímanum jafnast út. 

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: