Halakofi
Strax sem lítill snáði hafði ég ódrepandi áhuga á vélum. Ég fékk að sitja í fanginum á pabba og afabróður mínum á traktorum við heyskapinn og prófa að stýra. Það var erfitt fyrir lítinn pjakk því að á þessum tíma voru ekki komin vökvastýri. Það var auðveldara að skipta um gír þegar þeir sáu um kúplinguna og svo var hægt að nota stöngina við stýrið til að gefa inn. Þannig lærði ég kannski fullsnemma öll undirstöðuatriðin við akstur dráttarvéla eins og kom í ljós einn bjartan sumardag.
Afabróðir, mamma og bróðir minn voru að stússast eitthvað á bak við fjárhúshlöðu og í Bretabragganum sem stóð þar. Rauði Nallinn stóð í gangi við dyrnar á bragganum og kannski var lítil kerra aftan í honum. Ég man það ekki svo glöggt enda ekki nema fimm ára. Ég klifraði upp á traktorinn, rak hann í gír og hann fór af stað. En það gekk ekkert að stýra. Traktorinn tók sjálfur stefnuna á Halakofa og silaðist út túnið með brattar brekkur allt um kring. Þessi fyrsta sjálfstæða ökuferði mín hefði getað endað illa. En afabróðir áttaði sig á hvað var að gerast og hljóp á eftir vélinni. Sennilega náði hann að teygja sig í ádreparann og stoppa þetta gönuhlaup mitt. Auðvitað var hann margoft búinn að banna mér að koma nálægt vélinni upp á mitt einsdæmi. Og þegar hann lyfti mér niður af henni hágrét ég í fanginu á honum. Vissi upp á mig skömmina. Mamma grét líka þegar hún tók við mér og gegnum tárin horfðum við á Nallann sem stóð úti á túninu, hálfa vegu frá bragganum og út að Halakofa.