Sigvarða

Hver varða á sitt heiti og af þeim þremur sem standa í beini röð út eftir Hálsinum er Sigvarða yst. Hún er rúnum rist og skófum þakin en búinn að missa fyrri reisn fyrir allnokkru. Jarðfastur steinn er í undirstöðu en hleðslan ofan á öll úr lagi gengin. Langt er síðan einvern hefur dyttað að henni. Faðir minn á tíræðisaldri vill að ég leggi steinana sem fallið hafa að fótskör aftur upp á vörðuna. En ég tel að það tjái lítt, þeir muni leita aftur til jarðar. Af jörðu ertu kominn, að jörðu muntu aftur verða, af jörðu muntu aftur upp rísa. Faðir minn stígur á sleðann og brunar burt eftir hvítri fönninni. Ég stend eftir með stein í höndunum sem ég veit ekki hvar ég á að leggja frá mér í vörðuna.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: