Markmór
Rafgirðingin sem liggur eftir Markmónum hæfir vart gömlum landamerkjum bæja á milli hvar hún rekur sig frá Hæðum og niður að Læk. Trjáplönturnar sem Hrærekslækjarbóndinn hefur plantað í móann sín megin stinga líka í stúf við lággróður úthagans – það finnst bróður mínum allavegana. Annars er þetta mólendi ekkert merkilegra en annað og áður en girðingin kom veitti ég því litla athygli að þarna skipti löndum. Og þó. Einhvern tíma þegar ég var sem oftar að veiðum í Græfunum og gekk alveg út að Markhól, sem er austan lækjar og nokkru sunnar, velti ég fyrir mér hvers vegna landamerkjalínur við lækinn stóðust ekki á. Það lá ósætti í loftinu, eimdi eftir af fornum landamerkjadeilum þar sem forfeður mínir höfðu náð að teygja mörk Litlabakka lengra til norðurs heldur en þeir á Hallfreðarstöðum.