Lækjardalur
Stærð er afstæð og Lækjardalur er ágætt dæmi um það. Í fyrsta sinn sem ég kom á þennan austasta hluta heimalandsins þótti mér lítið til koma. Þessi lægð var tilkomuminni en sundin í Hrærekslækjaröxlunum. Og lækurinn var bara einhver mýrarvilpra sem hafði grafið sig gegnum jarðveginn og myndað niðurföll sem voru hættuleg fyrir reiðmenn og lambfé. Staðurinn stóð ekki undir nafni, hvorki dalurinn né lækurinn. Samt voru skorningar nógu mikil hindrun þegar ég þurfti að eltast við fé í smalamennskum á skellinöðrunni. Og þá bergmálar bölv mitt og ragn í lágum dalshlíðunum.
Hvort sem það er til marks um miðaldra mærð eða þroska sem kennir manni að meta hið smáa geri ég Lækjardalnum hærra undir höfði í dag. Á hverju hausti fer ég um hann til að smala líkt og forðum. Klettarnir sem umlykja hann hafa ekki hækkað og lækurinn rennur vart nema í haustrigningum. Samt er dalurinn enn á sínum stað með sitt gamla nafn. Ákveðinn friður fólginn í þessu heiti – Lækjardalur. En sá friður er oftar en ekki rofinn af rolluskjátum nágrannans sem espa mig og ergja með því að hlaupa sitt á hvað yfir skorningana.