Ytra-Mótún

Frelsi æsku minnar ráði hámarki í því að hlaupa berfættur um nýslegið tún milli skáranna úr sláttuvélinni. Á döggvotu kvöldi eftir hlýjan dag var grænt teppið mjúkt en snögghært. Múganum var þeytt í loft upp og sofnað með grænar yljar eftir hlaup og ærsl að kvöldi. Pabbi fór aftur út þegar ég fór að sofa. Hann sló í rekjunni og lágreykurinn lá yfir Blánni. Á einu túni hljóp ég þó aldrei berfættur. Það var Ytra-Mótúnið sem hafði verið unnið úr þurrum mó og því talið ráðlegast að sá í það vallarfoxgrasi. Þar var ég alltaf í neyddur til að vera í skóm þegar ég hljóp á eftir bindivélinni og velti böggunum frá flekknum svo að pabbi gæti komist á rakstrarvélinni til að raka í nýjan garða fyrir vélina. Seinna gróðursetti ég nokkur tré í móann og moldarflagið sem var innan girðingar á Ytra-Mótúninu. Má vera að þau verði vaxin mér yfir höfuð þegar sál mín stikar berfætt yfir túnið sem eitt sinn særði yljar mínar.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: