Fjóshlaðan

Ætli rottur séu ekki þau dýr sem flestir hafa viðbjóð á? Þegar ég var kornabarn var rottufaraldur í sveitinni. Sumir sögðu að þær hefðu komið frá sláturhúsinu í næstu sveit, hinum megin við ána. Sagt var að dökkar breiður af þeim hefðu sótt að næstu bæjum þegar þær voru búnar með allan innmatinn úr vambagryfjunum. Hjarðirnar hefðu síðan farið bæ af bæ. Með vetrinum lagði Jökulsána og þá komu þær á ís yfir í sveitina mína. En ég var bara smábarn og sá þær aldrei. Á vegg minninganna er samt greipt frásögn systkina minna af því þegar pabbi ruddi um rústunum af gamla torfbænum og hvernig hefði mátt sjá rottuflokkana flýja undan ýtutönninni í flóðlýsingu kastaranna. Það kom enginn í sveitina okkar með flautu til að steypa rottunum ofan í Jökulsána. Pabbi, sem var oddviti sveitarinnar, keypti rottueitur sem voru maísbaunir sem höfðu verið soðnar í eitri. Eitrinu var dreift á bæina og á nokkrum misserum tókst að útrýma rottum beggja vegna árinnar. Ég man eftir að hafa séð poka með eitruðum maís uppi á hillu sem barn – geymdur til vonar og vara ef þær létu á sér kræla að nýju. Ég held það hafi verið í fyrsta sinn sem ég sá heilar maísbaunir og sennilega höfðu íslensku rotturnar ekki heldur séð þær heldur. Einu rotturnar sem ég man eftir rakst ég á löngu seinna í hlöðunni heima. Eftir harðan vetur var komið niður í neðstu baggalögin í fjóshlöðunni. Um sumarið fyrir slátt vorum við krakkarnir að leika okkur þar. Þá datt ég á eitthvað hart og þegar ég tók það upp sá ég að þetta voru tvær uppþornaðar rottur –  steingerður vitnisburður um gamla rottufaraldurinn. Þessi fundur rifjaðist upp fyrir mér 30 árum síðar í kjallara írskrar kirkju þar sem uppþornaður köttur og mús úr orgelpípu voru til sýnis – flautan hafði grandað þeim.

Smáprósar

Leave a Reply

Discover more from Litlibakki

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading