Melar
Út’ og uppi á Melum söfnuðum við gömlum heyvinnutækjum, bílum og öðru skrani sem gekk úr sér. Út’ og uppi var ævintýraland æsku minnar og miðpunkturinn var virki sem við byggðum milli stórra steina og nýttum í það gamlar blæjur af Rússajeppa ásamt fleira góssi. Efnivið í ótal byssur var að finna í haugum af mótatimbri eftir fjárhúsbygginguna. Og þegar þurfti að fara í lengri ferðalög var hægt að setjast upp í gamla bíla og bruna eftir gresjum hugans. Stinga hausnum inn í rörið á heyblásaranum og láta öskur sín bergmála út yfir gljúfrin miklu.
Þegar ég í dag geng um út’ og uppi á Melum er gróið upp úr virkjum mínum og farkostarnir búnir að tapa áttum. Heyblásarinn minnir mig bara á vorið sem eitt lambið hvarf og við héldum að tófan eða hrafnarnir hefðu rænt því. Fundum ekki beinin fyrr en löngu seinna inni í blásaranum.