Guðmundarholt

Hver var hann þessi Guðmundur sem holtið heitir eftir? Það er beint út af bænum heima og gamli túngarðurinn er rétt fyrir utan það. Sprettan á þessum túnbleðli góð hvert sumar því að ofan við það er mýri sem aldrei þornar. Er sagan um að Guðmundur nokkur hafi orðið þarna úti sönn? Eða var það á þessu holti sem Guðmundur góði sló upp búðum sínum þegar hann blessaði Gvendarbrunninn? Stóðu hér tjaldbúðir biskups og fyldarmanna hans? Við fundum engar minjar um slíkt þegar við bjuggum til ruslagryfju neðst á holtinu og notuðu stóru rauðu jarðýtuna til að grafa jafnt timburrusl sem sláturúrgang. Einu sinni kveiktum við í gömlu heyi og bálið varð svo mikið að logarnir teygðu sig í jarðýtuna þegar fór að hvessa. Pabbi var ekki heima og ég þurfti að rifja upp hvernig hann togaði í stangir og steig á kúplingar til að færa ýtuna í rétta átt. Mér leið eins og Íkarusi þegar ég bakkaði Rollsinum frá brennunni á Guðmundarholti.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: