Steinarnir

Steinarnir tveir út undir Hvarfi láta lítið yfir sér á mörkum mýrar og móa. Úr fjarlægð rís Stóri steinn upp úr grónu landinu eins og hnúi. Hann er meira en mannhæðarhár þegar maður kemur að honum. Og í kringum hann er gróðurinn troðinn af kindunum sem leita skjóls við hann fyrir sól, vindi og regni. Undan honum sprettur lind sem aldrei þornar. Systir mín notaði steininn líka sem skjól og fór þangað þegar henni leiddist. Þegar rifist var um búskapinn var stundum best að ganga þennan spöl út að Stóra steini, segja nokkur orð við dvergana og syngja með mófuglunum. Systa átti litla snjáða söngvabók sem hún tók með sér í þessa göngutúra. Stundum fékk ég að trítla með og við rauluðum dægurlög fyrri tíma undir Stóra steini. Gott ef dvergarnir tóku ekki undir.

Seinna gekk ég með dóttur hennar að steininum og við hlustuðum á fugla himinsins syngja en dvergarnir þögðu.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: