Einbúi

Tvær skörðóttar klettanibbur sem skaga upp úr mýrarhalli neðan við Steinana eru kallaðar Einbúi. Sem barn tengdi ég heitið við einbúana í sveitinni. Einsetukarlana sem komu stundum og fengu lánaðar lestrarfélagsbækur. Eftir að hafa litið í hillurnar í svefnherbergjunum uppi og valið sér bækur var þeim boðið kaffi í eldhúsinu. Þeir klöppuðu mér oft á kollinn og ég sætti færis, fékk mér sykurmola sem ég dýfði í kaffið áður en ég stakk honum upp í mig. Tveir þeirra komu alltaf saman enda bræður sem bjuggu einir inni á heiði – tvíbúar. Annar þeirra var alveg sköllóttur og mér fannst skrýtið að horfa á glansandi hvirfilinn. Hárprýðinni var misskipt því að bróðir hans var með þykkan hárlubba. Þeir lásu mikið og komu á nokkurra mánaða fresti og fóru með fullan kassa af bókum. Seinna áttu þeir eftir að bjarga mér og vini mínum úr villu á heiðinni. Ég heyri enn köllin í þeim og sé grilla í ljósin á Zetornum gegnum þokuna. Þá var komið að mér að þiggja kaffi í eldhúsinu þeirra. Ekki löngu seinna lést sá með skallann en yngri bróðirinn var einbúi í mörg ár eftir það. Síðan dó hann líka og enginn býr á bænum þeim lengur. Bækur Lestrarfélagsins fluttu úr svefnherbergjunum okkar í bókasafn skólans hvar þeim var síðar flestum fargað vegna nýrra tíma. Þannig hefur tíminn höggvið skörð í fleira en Einbúann þar sem skófirnar á klettunum mynda enn sama mynstrið og þegar ég var lítill að lesa á steina.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: