Veghóll
Upp af Döpum er lítill hóll og þar liggur gróin gata. Áður fyrr skiptust götur á þessum stað. Önnur lá heim á bæ yfir hólinn en hin út Bakka. Veghóllinn er ein af þessum smáhæðum sem skaga upp úr móum og mýrum í landinu heima, vart meira en harðvellisbunga. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað hann hét áður en stungið var upp úr mýrinni og hlaðið að honum til að gera akfært heim á bæ. Ef til vill hét hann ekki neitt. Var bara nafnlaus mishæð sem skildi á milli mýrarinnar fyrir ofan og móans fyrir neðan. Fyrir tilstilli nútímans og nýrra samgöngutækja var hóllinn allt í einu settur skör hærra og fékk heiti. Hvort hófar fortíðar eiga einhver för undir hverfandi hjólbarðaslóðum fæ ég aldrei að vita. En af Veghólnum var gott að fylgjast með gamla álftaparinu á Döpunum.