Elftingarenni

Norðan í Hálsinum eru djúpar götur genginna alda. Þar reið Páll Ólafsson á Stjörnu sinni. Þar rann lestin sem flutti rekavið af Héraðssandi í kirkjuna á Jökuldal sem sökk í sögunni. Vegur frá seinni tímum er líka gróinn og lækjarsytrur hafa étið skörð í hann. Um þessar slóðir fyrir framan og austan fór ég aðeins til að smala. Heiman frá bæ sást oft til fjár að bíta nýgræðinginn í brekkunum. Og á haustin gat verið erfitt að koma þeim niður af Hálsinum og heim. Því fylgdi oft mikill eltingarleikur og rollurnar runnu í allar aðrar áttir en þær áttu að fara.

Sennilega var það þess vegna sem að ég misskildi eitt örnefnið á þessum slóðum. Það var eiginlega ekki fyrr en ég sá fagurgræna skógarbotna með elftingu sem bylgjaðist í blænum að þessi staður fékk sitt rétta nafn í huga mínum. Eltingarenni varð að Elftingarenni. Öllu rómantískara heiti og laust við mæði smalans. Meira eins og djúpt andvarp á áningarstað.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: