Reiturinn
Ramfang og rifsberjarunnar mynda skjól fyrir kaldri norðanáttinni. Í minningunni sit ég og tíni í mig græn ber og hundasúrur. Horfi á gráa stálkrossana á leiðunum. Reiturinn er skjólsæll og gott að leita þangað með þungar hugsanir. Í honum hvíla afi og amma, langafi og langamma og fleiri ættmenni. Þegar ég var lítill bannaði mamma mér að ganga á gröfunum en ég mátti næla mér í rifsber ef að ég skildi nóg eftir fyrir hlaupgerð haustsins. Grafreiturinn stendur á hólnum ofan við bæinn hvar langafi og langamma völdu honum stað fyrir meira en hundrað árum og fengu leyfi Danakonungs til að hvíla þar með sínu fólki. Voldugir steinsteyptir staurar vörðu Reitinn fyrir fénu sem reyndi að teygja sig eftir bragðgóðu ramfanginu gegnum girðinguna. Árin liðu og leiðin í garðinum urðu fleiri. Steinsteyptu staurarnir fóru að halla undir flatt og það kom í minn hlut að gera nýja girðingu kringum Reitinn. Hún er úr timbri en með því að mála það reglulega vona ég að ramfangið haldi velli og rifsberjarunnarnir fæði áfram fólk og fugla. Og að þegar yfir lýkur fái ég aftur að njóta næðis í Reitnum – um eilífð.