Stekkjartjarnir

Niðri í Blánni blasa við tjarnir sem sjaldnast þorna þó að sumarið sé þurrt. Eins og á Döpunum verpa þar álftir en gæsir, endur og smærri fuglar nota tjarnirnar til baðferða. Þær eru nefndar eftir grónum rústum beitarhúsa sem stóðu norðan undir litlum kletti niðri við á. Við þessar tjarnir hef ég skoðað ótal hreiður, þökk sé bróa mínum sem vakti hjá mér áhuga á fuglum þegar ég var barn. Við lágum stundum tímunum saman með sjónauka úti í móa og fylgdumst með fuglunum, aðallega til að finna hreiður svo að brói gæti bætt nýrri tegund í eggjasafnið sitt. Eitt vorið kom undarlegt par í Blána í grennd við Stekkjartjarnir. Grágæs og Kanadagæsarsteggur höfðu parað sig saman og reyndu nú hvað þau gátu að stofna fjölskyldu. Steggurinn var stærri og allt öðruvísi með sinn svarta háls og hvíta kverkaklút. Svona fugl höfðum við aldrei séð áður og þeir voru sjaldséðir á Íslandi að sögn fuglafræðinga. Nú upphófst vísindarannsókn, að finna hreiður parsins og fylgjast með hvort að úr eggjunum skriðu blendingar þessara ólíku gæsastofna. Hreiðrið fundum við og vöktuðum. Tíminn leið og alltaf lá gæsin á. Steggurinn tignarlegi stóð í hæfilegri fjarlægð og lét spúsu sína heyra þegar við nálguðumst. Þrjár vikur liðu en á endanum gafst gæsin upp á eggjum sínum. Fuglafræðingarnir sögðu að afar sjaldan tækist frjógvun á milli gæsastofna. Hjónin höfðu því vaktað fúlegg allan tíma.

En gæsir eru afar trygglyndar og átthagabundnar. Það kom því ekki á óvart að vorið eftir mætti parið aftur á óðal sitt við Stekkjartjarnir. Allt fór á sömu leið og engin lítil nef brutu gat á eggin í dúnfóðruðu hreiðrinu. Ég fann til með hjónunum sem voru ungalaus á meðan flest hin gæsapörin kenndu sínum afkvæmum að synda á tjörnunum eða Jökulsánni. Um haustið flugu þau burt með öllum hinum. Við áttum ekki von á að sjá þau meir. Fylgdumst þó með óðali þeirra þriðja vorið. Og dag einn birtust þau á sínum stað. Það var síðasta vorið sem við sáum þau.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: