Hraun

Gullabúið systkina minna hlaut ég ungur í arf, verandi langyngstur. Það var fjarri bænum inni við Hraun í dálitlum grafningi sem leysingavatn hafði grafið. Þar voru gömul eldunartæki sem mátti nota fyrir eldavél, brotið leirtau og bogin hnífapör, stórt trékefli undan símavír sem borð og eitt og annað fleira góss. Á sumrin undum við okkur þar löngum stundum, ég og krakkarnir sem voru í vist hjá okkur. Glæsilegar drullukökur voru frambornar, blómum skreyttar. Ef okkur leiddist eldamennskan var alltaf hægt að fara í byssuleik milli steinanna og kringum gamla reykkofann. Inni í honum var svalt og rakt myrkur eins og í dýpstu kastaladýflissu og reykjarilmur sem minnti á ljúffengt hangikjötið sem þar hékk yfir veturinn. Á Hrauninu var allt til alls. Rabarbaragarður í túnhorninu geymdi súra leggi sem við freistuðum stundum til að slíta upp og bárum þá fram nýja rétti á grænum blöðum. Og til að slökkva þorstann var farið með bolla þar sem vígða vatnið úr Gvendarbrunninum bunaði ofan í skurðinn.

Hvers vegna staðurinn hét Hraun skildi ég ekki fyrr en einn desemberdag. Þá sá ég út um gluggann á húsinu heima að eldtungur teygðu sig til himins inni hjá gullabúi líkt og þar væri hafið eldgos. Það var kviknað í reykkofanum. Pabbi og bróðir minn fóru og mokuðu snjó á eldinn en það hafði lítið að segja. Hangikjöt er góður eldsmatur, sérstaklega síðubitar. Þessi jól varð í fyrsta sinn að kaupa hangikjöt hjá kjötkaupmanninum í þorpinu. Sumarið eftir var dýflissan brunarústir. En sótið á röftunum úr þekjunni var nýtt til stríðsmálningar fyrir indíána sem stukku milli steina, mettir af rabarbara og eldvatni.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: