Melkofi

Fjárhúsin voru dreifð þegar ég fæddist. Öll þessi hús var hætt að nota þegar nýju bárujárnshúsin risu árið 1978. Torfkorfarnir viku fyrir járni og hvítu einangrunarplasti. Ein gömlu húsanna stóðu uppi á mel um 300 m frá bænum. Það var Melkofinn. Gemlingarnir voru geymdir í Melkofanum og fengu að liggja við opið. Þeir höfðu meira frelsi en kindurnar heima í fjárhúsum sem afi minn og afabróðir steyptu upp um miðja öldina. Ég man óljóst eftir að hafa komið inn í Melkofann og gengið eftir garðanum sem var upphlaðinn úr torfi og grjóti með einföldum garðafjölum og garðaböndum. Pabbi var að gefa ilmandi töðu sem hann flutti á sleðanum sem hengdur var aftan í Yamaha 340. Seinna var járnið rifið af húsunum, þau jöfnuð við jörðu og sáð í rústina. Baggarnir af rústinni áttu það til að vera þyngri en aðrir sökum arfans sem hélt áfram að spretta þar sem skítahaugurinn hafði verið. Uppi á melnum sjálfum uxu jakobsfíflar og peningagras sem hægt var að binda úr blómsveig. Og framan í melnum var moldarbarð sem lambærnar nýttu sem skjól á vorin fyrir norðaustan krapahríð. Undarlega sendin moldin þar í minningunni en ullartjásur og gráar rætur teiknuðu myndir í moldina.

Smáprósar

Leave a Reply

Discover more from Litlibakki

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading