Kýrvarða

Örnefnafræðingur Íslands kom í heimsókn eitt sumarið og spurði pabba út í örnefni í landinu okkar. Hann var sérstaklega áhugasamur um og Kýrvörðu. Þessi maður var þekktur fyrir þá kenningu að öll örnefni ættu rót sína í landslaginu en væru ekki dregin af manna- eða dýraheitum. Af hlaðinu heima benti hann yfir ána á Hallgeirsstaði og sagði: „Sjáiði hvernig hjallarnir hallast niður að bænum eins og hallandi geirar. Eru þeir ekki komnir þarna hallgeirarnir í bæjarnafninu fremur en að einhver Hallgeir hafi byggt þennan bæ?“ Við kinkuðum kolli og síðan ók pabbi sérfræðingnum út á Háls. Þeir gengu niður að Kýrvörðu. Á bak við holtið sem varðan er á er stararmýri eða ker sem jafnan er mjög blaut. Sérfræðingurinn benti á kerið og sagði: „Þarna er kýrin eða kerið sem breyttist í kú í örnefninu. Auðvitað hefur þetta heitið og Kervarða enda hefur enginn farið með kýr alla leið hingað.“ Pabbi kokgleypti þessa tilgátu og talaði alltaf um Kervörðu eftir þetta. Ég fann að mömmu fannst það miður því að hann kom úr annarri sveit en hún var alin upp við að ganga út á Kýrvörðu í leit að kúnum á kvöldin.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: