Geirstaðir
Beitarhúsin á Geirstöðum voru löngu komin úr notkun þegar ég fæddist. Enda langur gangur að heiman og þangað út eftir. Kindagöturnar voru samt greinilegar og veggjarbrotin afmörkuðu krær, garða og hlöðu. Fólkið á bænum hinum megin við ána sagðist stundum enn sjá ljós á vetrarnóttum á beitarhúsunum. Villuljós sem í norðanhríð gat afvegaleitt þá sem fóru á ís yfir ána milli sveita. Sagan segir að nokkrir hafi orðið úti í hríðarbyljum í Blánni af þess völdum.
Ég hugsaði oft um þetta ljós en sá það aldrei enda staðurinn utan við Hvarf. Löngu seinna fannst þúsund ára kirkjurúst og skálatóft á Geirstöðum. Geirstaðakirkja stendur nú sem tilgátuhús nærri bænum heima en í henni sést aldrei ljós. Það er enn ófundið á sínum stað á Geirstöðum.