Geirsteinn

Langt fyrir utan Hvarf er stór steinn sem heitir Geirsteinn. Að honum kom ég vor og haust. Á vorin kjagaði ég að steininum með stóra gamla bakpokann hans pabba sem var með járngrind og góður til að rúma allt að 100 gæsaregg. Pokinn var farinn að síga í eftir að ég hafði gengið út holtin í blánni og leitað uppi þurrustu blettina þar sem gæsin valdi sér hreiður í mýrarfjalldrapanum. Samt hélt ég alltaf á brattann og gekk upp að Geirsteini því að það hentaði vel að taka pokann af bakinu við steininn og hvíla sig.

Geirsteinn er ekkert venjulegt grjót heldur gríðarstór hnullungur sem ísaldarjökullinn lagði frá sér eftir að hafa velt honum á undan sér um langan veg. Í flutningunum kom sprunga í steininn og þegar jökullinn losaði greip sína stækkaði hún. Vatnið sem fraus í henni skipti steininum að lokum í tvennt og á þeim árþúsundum sem síðan liðu lagðist annar helmingurinn á hliðina og færðist frá þeim stærri. Á þennan flata stein lagði ég pokann og sjálfan mig. Mér rann oft í brjóst og mig dreymdi huldumeyjar sem komu út úr steininum og vildu lokka mig til lags við sig. En þá vaknaði ég, snaraði pokanum aftur á bak og kjagaði heim.

Á haustin rak ég fé framhjá Geirsteininum. Þá var enginn tími til að stoppa og tala við huldumeyjar. Ég lét mér nægja að strjúka steininum og stugga svo kindunum áfram heim götuna.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: