Gildruvarða

Kollóttur klettur með fægðan skalla prýddur vörðuleifum. Hér stóð Gildruvarðan. Hér komu forfeður mínir fyrir skollagildrum, reyndu að lokka rebba í steingildru svo að hann legðist ekki á féð. Örnefnið vakti hjá mér löngun til að smíða gildru og í Handbók bænda fann ég teikningu af felligildru þegar ég var fjórtán ára. Gildra var þríhyrnt og smíðuð úr afgangstimbri ofan af Melum. Um veturinn flutti ég gildruna á vélsleða að ytri enda Urriðavatnsins þar sem lækurinn fellur úr því. Þar spennti ég hana og bar á hana grjót svo sem fyrir var lagt. Næstu vikur vitjaði ég um gildruna en aldrei veiddi hún neitt. Tófuförin við vatnið sýndu að lágfóta var kænni en svo að hún léti táningsstrák narra sig í dauðann. Ég sótti gildruna aldrei og nú er timbrið löngu fúnað og horfið. En eftir stendur steinahrúga líkt og á Gildruvörðu. Hnullungar sem vitna um vígamóð unglingsára. Það er minna blóðbragð á tönnunum núna.

Smáprósar

Leave a Reply

Discover more from Litlibakki

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading