Garðurinn

Forn torfgarður liggur þvert yfir landareignina frá Stekknum niðri við Jökulsá yfir hálsinn hjá Gildruvörðu og austur í Græfur gegnum Stóramó. Hann er víðast orðinn ógreinilegur en þeir staðir finnast þar sem bein lína sker mýrina. Garðurinn mun vera frá fyrstu öldum byggðar og trúlega hlaðinn af þrælum. Tilgangurinn með framkvæmdinni er á huldu en líklega hefur búfénaður bændanna ekki átt að blandast. Þegar ég var barn notaði ég garðinn sumstaðar til þess að komast þurrum fótum frá einu holti til annars. Þá hugsaði ég lítið út í uppruna hans og það var ekki fyrr en seinna sem garðurinn sótti á hugann. Hann er ekki aðeins að finna í landinu heima heldur teygir sig yfir Tunguna frá Jökulsá að Lagarfljóti. Forn vitnisburður um landamæri sem við vitum engin deili á í dag – okkar Kínamúr.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: