Jökulsá III

Við tíndum draslið upp á heyvagninn í vorblíðunni. Stöfluðum þar rusli síðasta vetrar. Á vagninn fóru bíldekk, fúaspýtur, tómar flöskur, pappakassar, pokar fullir af sorpi, lömb sem drápust við burð og rollur sem lifðu ekki af veturinn. Öllu var dröslað upp á vagninn og síðan ekið inn Framtúnið og gamla veginn að háum bakka þar sem Jökulsáin beljaði undir. Það var farið að slá í sumt og lyktin eftir því þegar við tíndum af vagninum og þeyttum flöskum og öðru dóti eins langt út í strauminn og við gátum. Sumt flaut í fyrstu en sökk svo í eðju vorleysinganna. Þannig undirstrikaði áin mátt sinn og ég skildi betur varúðarorð foreldra minna um að Jökla gleypti allt. Samt fór ég oft niður á víðáttumiklar eyrarnar. Og þegar lítið var í ánni kom fyrir að upp úr sandinum stæði flöskustútur sem ég kannaðist við að hafa handleikið.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: