Jökulsá II
Þegar þú ert tíu ára og skotinn í stelpu er ægilegt að hafa jökulfljót sem hindrun milli bæja. Þú hérna megin en hún hinum megin. Ég sá hana á hverjum degi í skólanum yfir veturinn en þetta var verra á sumrin. Þá fór ég stundum niður á gamla Stekk. Ég hafði heyrt af hörkutólum í sveitinni sem óðu yfir ána á gúmmískóm eða syntu mót gruggugum jökulstraumnum. En þar sem ég var hvorki syndur né átti slíka ofurgúmmískó þá gat ég lítið annað gert en staðið á bakkanum og reynt að koma auga á litla manneskju fyrir handan. Fjarlægðin var það mikil að ég gat illa greint muninn á henni og bróður hennar. Oftast lagðist ég bara á milli gróinna veggjarbrota gömlu beitarhúsanna og lét mig dreyma um vængi eða góðan bát til að koma mér yfir um. Fundir okkar hinum megin yrðu fullir af kossum og ég fann fyrir ákveðinni spennu í buxunum.