Döp I
Döp er skrýtið nafn á tjörn sem stundum þornar upp á sumrin. Má vera að hún hafi verið notuð til að skíra fólk í til forna og nafnið sé dregið af germanska orðinu „dop“. Við stunduðum niðurdýfingar og syntum í henni á góðum sumardögum þegar sólin hafði velgt vatnið. Gættum þess þó að koma ekki of nálægt álftaparinu sem átti þar heima. Á hverju ári sneru gömlu hjónin aftur og byggðu upp dyngju sína á stórri þúfu úti í tjörninni. Þau voru auðþekkt því að karlinn var með lafandi fót sem sást vel á flugi. Það hlýtur að hafa háð honum í millilandafluginu. Ég var sá eini sem fékk að nálgast hreiðrið óáreittur á vorin. Sennilega vegna þess að ég var alltaf að sniglast í kringum tjörnina og smár eftir aldri. Ef fullorðnir komu nærri breiddu þau út vængina og hlupu gargandi á móti þeim. Ég fékk meira að segja að gægjast í dyngjuna á meðan þau syntu skammt frá á tjörninni og gat talið álftareggin.
Enn verpa álftir á Döpum. Hvort þær eru afkomendur þeirra gömlu veit ég ekki. Þær hafa allavegana ekki erft lafandi fót. Og vinátta mín við þau gömlu er gufuð upp eins og tjarnirnar sjálfar.