Döp II

Ég las ógrynnin öll af hetjusögum og ævintýrabókum sem barn. Ein afleiðing þess var sterk löngun til að smíða fleka líkt og þeir Tommi og Stikilsberja-Finnur sigldu á í Suðurríkjunum. Eftir að hafa viðað að mér efni og fengið stóra bróður til að flytja það inn að Döpum hófst ég handa við smíðina. Efniviðurinn var gamalt rúm, sem afabróðir minn hafði sofið í þar til hann fór í ellivist í þorpinu, baggabönd, nokkrar spýtur, gular netakúlur utan af Héraðssandi og tvær stagbættar gúmmíslöngur úr Land-Rover dekkjum. Gömul handpumpa var notuð til að dæla í slöngurnar og þær síðan bundnar í botninn á rúminu sem ég sneri á hvolf með fæturnar upp í loft. Á þær ætlaði ég að negla langbönd til að enginn dytti útbyrðis. En ákafinn til sjósetningar varð yfirsterkari öryggismálum. Ég lét mér nægja að negla eitt brotið hrífuskaft við einn fótinn sem flaggstöng. Síðla dags bauð ég móður minni að vera viðstödd sjósetningu flekans inni á Döpum. Eftirvæntingin var mikil þegar hún ýtti mér frá landi með varúðarorðum um að gæta að mér þar sem ég væri ósyndur. Ég stóð keikur með gamalt hrífuskaft í hendi og fleytti mér áfram um alla tjörnina milli stórra þúfna sem í huga mínum voru hólmar í Missisippi. Allt gekk vel og loftið hélst að mestu í gúmmíslöngunum. Á hliðunum dingluðu gulu netakúlurnar og á flaggstönginni var sjóræningjafáni sem ég hafði teiknað og neglt á hrífuskaftið. En þegar kom að því að lenda við norðurströndina fór ekki betur en svo að flekinn sporðreistist og ég féll í vatnið. Ég fór á bólakaf, kom upp úr og tók andköf en sökk aftur. Ég hafði lesið að ósyndur maður kæmi aldrei upp eftir að hafa sokkið í þriðja sinn. Gegnum hugann fóru sýnir frá öllum þeim sjö árum sem ég hafði lifað. En þá fann ég hönd móður minnar grípa í mig og ég náði að koma fótunum undir mig. Ég stóð upp. Þar sem ég stóð náði vatnið mér rétt upp fyrir hné. Saman ösluðum við í land og jöfnuðum okkur á lífshættunni. Feigðarfleyið var ekki sjósett aftur. Þegar leið mín lá að Döpum áratugum síðar var fátt til vitnis um þessa háskaför annað en gular netakúlur og nokkrar fúaspýtur.

Smáprósar

Leave a Reply

Discover more from Litlibakki

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading